Neytendur

„Ís­lenski neytandinn er alla­vega ekki að sýna merki um sam­drátt“

Lovísa Arnardóttir skrifar
Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri SVF, segir jólaverslun hafna og verslunarmenn ekki endilega merkja samdrátt í neyslu.
Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri SVF, segir jólaverslun hafna og verslunarmenn ekki endilega merkja samdrátt í neyslu. Vísir/Einar

Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, segir verslunarmenn ekki finna fyrir miklum samdrætti. Það hafi orðið einhver breyting á neyslu en almennt sé verslun góð. Verslunarmenn séu spenntir fyrir afsláttardögunum fram undan og jólaverslun sem sé hafin.

Benedikt segist hafa rætt við verslunarmenn í vikunni og það sé ekki þeirra tilfinning að neytendur séu mikið búnir að breyta hegðun sinni utan þess sem gerist þegar það er verðbólga.

„Íslenski neytandinn er allavega ekki að sýna merki um samdrátt enn sem komið er,“ segir Benedikt sem var til viðtals í Bítinu á Bylgjunni í morgun.

Hann segir geta verið mun eftir því hvernig verslun er um að ræða og nefnir í því samhengi viðtal við Finn Oddsson, forstjóra Haga, sem sagði Haga greina að neytendur væru að geyma til dæmis matarinnkaupin þar til eftir mánaðamótin. Hagar reka til dæmis Bónus, Hagkaup, Olís, Banana og Zöru. Hann sagði breytta neytendahegðun aðallega tvenns konar.

„Það skiptist í tvennt, það er tilfærsla yfir á ódýrari hluta vara í sama vöruflokki. Það er þróun sem er búin að eiga sér stað síðustu tvö ár,“ segir Benedikt og að svo sé það þessi tilfærsla að geyma innkaupin þar til eftir mánaðamót.

„Það er afar mismunandi eftir verslunum,“ segir Benedikt sem ræddi við verslunarmenn í vikunni og sagði suma ekki sjá nein slík merki.

Verslunarmenn með væntingar í hófi

Benedikt segir að þegar horfur eru ekki góðar stilla menn væntingum í hóf og þannig sé verslunarfólk ekki endilega með væntingar um mikinn gróða, heldur vilji það bara sjá svipaða niðurstöðu og árið áður, verðlagsleiðrétta.

„Ef það kemur svo aukning er það umfram væntingar,“ segir hann.

Hann segir jólaverslun komna í gang. Hún hafi byrjað um síðustu mánaðamót og verslunarmenn segja hana fara betur af stað en þeir bjuggust við.

„Fyrstu merki eru allavega ekki að neytendur séu að halda að sér höndum,“ segir hann og að á sama tíma sé mikil spenna í kringum afsláttardaga. Verslunarfólk sjái hreyfingar inni á netverslunum.

Benedikt segir verslunarmenn fylgjast með því sem gerist úti í heimi og í íslensku efnahagslífi. Það séu blikur á lofti en fólk viti ekki hvernig það fer eða hversu lengi það geti varið.

„Íslenski neytandinn er dálítið öðruvísi en neytandinn á hinum Norðurlöndunum. Slæmar fréttir koma strax fram í kauphegðun,“ segir hann og að hann hafi hitt kollega í Danmörku um daginn sem sagði honum að kjötneysla hefði hrapað undanfarin ár. Það væri dýr matvara og neytendur þar taki því mjög bókstaflega. Hann segir einkaneyslu Íslendinga ekki endilega sveiflast eins mikið og þar eftir fréttum um vexti og verðbólgu.

„Ég veit ekki nákvæmlega hver skýringin á því er en mann grunar að það sé vegna þess að kaupmátturinn hér hefur verið stórgóður.“

Kaffi hækkað um 20 prósent

Hvað varðar vöruverð segir hann ýmsar vörur hafa lækkað síðustu misseri og nefnir í því samhengi ýmis ber, ávexti og grænmeti. Það sem hafi ekki lækkað er til dæmis kaffi, sem hafi hækkað um 20 prósent á þessu ári.

Hann segir kostnað við rekstur verslana hafa aukist og á þá við leigu, rafmagn og laun og þannig að einhverjum 100 krónum sé minna eftir af honum í dag en fyrir ári en afkoman hafi batnað lítillega á sama tíma.

„Miðað við það að afkoman hafi ekki stóraukist þá bendir það til þess að gengisstyrking, og lækkanir á innkaupsverðum, hafi skilað sér nokkuð duglega út,“ segir Benedikt og að takturinn sé dálítið skrítinn samt sem áður.

Það hafi byrjað á hækkun á innfluttum vörum, aðföngum og vörum, í kringum Úkraínustríðið, svo hafi þessi innflutta verðbólga dvínað en þá hafi innlend verðbólga tekið við. Núna sé trendið að innlendar framleiðsluvörur séu að taka mestar hækkanir, fyrir utan kaffi og kakóvörur sem einnig hafi hækkað.

Verslunarmenn brattir og fólk í betra skapi

Benedikt segir alla stefna að því að komast út úr þessum hring og að verslunarmenn séu nokkuð brattir eins og er.

„Þeir eru nokkuð brattir. Þetta er líka skemmtilegur tími núna fram undan,“ segir hann og að það sé mikil stemning í verslunum á þessum tíma, mikið að gera og í mörgum verslunum sé þetta mikilvægasti tíminn. Á sama tíma sé spennandi að fylgjast með vexti netverslana og áhugavert að sjá hvernig verslunin dreifist á lengri tíma í kringum afsláttardagana. Sá fyrsti er á þriðjudag í næstu viku, dagur einhleypra, og svo tekur við svartur föstudagur og stafrænn mánudagur í kringum síðustu helgi mánaðarins.

„Þetta er ekki lengur þessi klikkun sem var 23. desember, dreifist miklu meira og fólk er í betra skapi.“


Tengdar fréttir

„Ætlum ekki að hætta við allt sem er erfitt og gera allt fyrir alla“

Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra sagði ríkisstjórnina vera að taka til eftir óstjórn í ríkisfjármálum á síðustu árum en sérstök umræða um efnahagsmál er í gangi á Alþingi að beiðni Guðrúnar Hafsteinsdóttur formanns Sjálfstæðisflokks. Guðrún sagði stöðu hagkerfisins erfiða og að atvinnulífið ætti undir högg að sækja.

Ómögulegt sé fyrir fólk á Eflingarlaunum að komast á húsnæðismarkað

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, og Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segja mikilvægt að bregðast við erfiðri stöðu á húsnæðismarkaði. Sólveig Anna kallar eftir leigubremsu og Sigurður segir ríkisstjórnina verða að kynna sín úrræði fljótlega vegna dóms Hæstaréttar í vaxtamálinu.

„Upp er runninn Kristrúnar Frostaveturinn mikli“

Oddviti Framsóknar í Reykjavík segir meirihlutann í borgarstjórn sýna algjört ábyrgðarleysi í fjárhagsáætlun sinni fyrir næsta ár og til 2030. Hann á ekki von á því að áætlanir um milljarðaafgang standist, sér í lagi vegna stöðunnar sem uppi er í efnahagsmálum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×