Körfubolti

Óli Óla: Við getum al­veg eins hrokkið upp af á morgun

Árni Jóhannsson skrifar
Ólafur Ólafsson gerði mjög vel í kvöld.
Ólafur Ólafsson gerði mjög vel í kvöld. Vísir / Anton Brink

Ólafur Ólafsson var einn af örlagavöldunum í sigri Grindvíkinga á Keflvíkingum 104-92 í Grindavík í 6. umferð Bónus deildar karla. Stig hans og fráköst skiptu máli á lokakaflanum en hann endaði með 20 stig og sjö fráköst.

„Þetta var skemmtilegt“, sagði Ólafur þegar ahann var spurður um stærð sigursins strax að leik loknum. 

„Það var mjög gott að klára þetta í hörkuleik við Keflvíkingana og mjög góður sigur. Ég er þreyttur og feginn að hafa náð að landa sigri hér í kvöld.“

Körfubolti er kannski ekki flóknasta íþrótt í heimi og svör Ólafs báru það með sér þegar hann var spurður út í hvað hafi skilað sigrinum.

„Bara varnarleikur. Enn og aftur. Við vorum að sýna á köflum hvað við erum góðir í vörn og svo á öðrum köflum hvað við getum við lélegir í vörn. Mér fannst við spila góðan varnarleik í svona 35 mínútur.“

Bæði Grindavík og Keflavík hafa metnað fyrir því að ná langt í vetur en það er bara nóvember. Telur Ólafur að þessi leikur sé mögulega forsmekkur að því sem gerist í vor?

„Nei, við getum alveg eins bara hrokkið upp af á morgun. Við erum bara með báðar fætur á jörðinni og erum sallarólegir. Það er gaman að vinna, við förum í alla leiki til að vinna en við erum með báða fætur á jörðinni.“

En er einhver hætta þá að fæturnir fari af jörðinni þar sem liðið er taplaust?

„Vonandi ekki. Það er undir okkur komið að halda þeim á réttum stað og sjá til þess að við séum að vinna í okkar hlutum og verða betri og betri.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×