Innlent

Hvatningar­verð­laun gegn ein­elti af­hent á Laugar­vatni

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Gunnlaugur Víðir Guðmundsson, forstöðumaður félagsmiðstöðvarinnar Gleðibankans í Reykjavík, sem hlaut hvatningaverðlaunin gegn einelti i dag við hátíðlega athöfn í Menntaskólanum að Laugarvatni.
Gunnlaugur Víðir Guðmundsson, forstöðumaður félagsmiðstöðvarinnar Gleðibankans í Reykjavík, sem hlaut hvatningaverðlaunin gegn einelti i dag við hátíðlega athöfn í Menntaskólanum að Laugarvatni. Aðsend

Gunnlaugur Víðir Guðmundsson forstöðumaður félagsmiðstöðvarinnar Gleðibankans í Reykjavík hlaut í dag hvatningarverðlaun gegn einelti en hann hefur lagt sig fram af miklum krafti að draga úr einelti og samskiptaerfiðleikum ungs fólks. Um er að ræða verðlaun Heimilis og Skóla en athöfnin fór fram á Laugarvatni í morgun.

Fjölmenni kom saman í Menntaskólanum að Laugarvatni í morgun þegar hvatningaverðlaunin voru afhent en það kom í hlut Páls Óskars Hjálmtýssonar að tilkynna hver fengi verðlaunin í ár en það er Gunnlaugur Víðir Guðmundsson, forstöðumaður Gleðibankans, sem er félagsmiðstöð fyrir unglinga í Reykjavík.

Jóna Katrín Onnoy Hilmarsdóttir, skólameistari menntaskólans stýrði samkomunni í dag en um 150 nemendur eru í skólanum.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Dagur gegn einelti , sem var reyndar 8. nóvember, hefur verið haldinn árlega síðan 2011 og er mikilvæg áminning um að við berum öll ábyrgð á öruggu og hlýju skólasamfélagi.

„Takk kærlega, þetta er gríðarlegur heiður. Ég tek þessu, sem viðurkenningu fyrir mín störf og er mjög mjög þakklátur,“ sagði Gunnlaugur Víðir meðal annars í þakkarávarpi sínu.

Kór menntaskólans söng við athöfnina undir stjórn Stefáns Þorleifssonar og svo voru haldin nokkur ávörp. Freyja Rós hjá menntaskólanum hlaut verðlaunin á síðsta ári og þess vegna var athöfnin þar í dag.

Kór Menntaskólans að Laugarvatni söng tvö lög undir stjórn Stefáns Þorleifssonar.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Var erfitt að bera þennan titil í ár eða var það létt?

„Bæði og því þetta er svolítil pressa en auðvitað er bara gott að hafa þessa pressu, við þurfum að halda áfram og standa okkur,“ segir Freyja.

Hvað getur þú sagt mér um verðlaunahafana í ár?

„Hann var valinn einróma af dómnefnd og er að standa sig frábærlega í sínu starfi,“ segir Sigurður Sigurðsson, framkvæmdastjóri Heimilis og skóla.

Sigurður Sigurðsson framkvæmdastjóri Heimilis og skóla.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Sigurður minnir á ábyrgð foreldra þegar einelti er annars vegar.

„Já, að tala við börnin um mikilvægi þess að vera góð við alla og bjóða öllum með og vera opinn fyrir því ef við fáum símtalið um að barnið okkar sé kannski gerandi að vinna í því.“

Dagskránni á Laugarvatni lauk svo með lagi frá Páli Óskari og Benna Hemm Hemm.

Páll Óskar og Benni Hemm Hemm spiluðu og sungu fyrir gesti athafnarinnar og uppskáru gott og langt klapp eftir flutninginn. Lagið heitir „Eitt af blómunum“.Magnús Hlynur Hreiðarsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×