Fótbolti

Fá jafn­stóran klefa og karlarnir í Barcelona

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sydney Joy Schertenleib fagnar einu af mörkum sínum fyrir Barcelona.
Sydney Joy Schertenleib fagnar einu af mörkum sínum fyrir Barcelona. Getty/ Javier Borrego

Hinn nýi Nývangur er glæsileg bygging og hún kemur líka með ýmsar nýjungar fyrir knattspyrnufélagið Barcelona. Meðal þess er meira jafnrétti á milli kynjanna.

Kvennalið Barcelona mun nefnilega fá búningsklefa á nýja Camp Nou sem er jafnstór og á sama stað á leikvanginum og sá hjá karlaliðinu.

Þetta kemur fram í fyrstu teikningum sem spænskir fjölmiðlar hafa komist yfir, en þær sýna að kvennaliðið fær loksins jafnt pláss og karlaliðið á einum þekktasta leikvangi heims.

Þetta kann að virðast einföld breyting á aðstöðu, en hún sendir skýr skilaboð um hvernig félagið vill meta kvennaliðið til framtíðar. Jafnt pláss, jöfn meðferð og alvöru heimili á aðalleikvanginum.

„Þær geta skipt um föt og gert sig tilbúnar í sínu eigin rými, því þetta er þeirra heimili,“ sagði Xavi Puig, stjórnarmaður hjá Barcelona.

Það vantar heldur ekki upp á afrek kvennaliðsins á síðustu árum. Meira að segja Barcelona-karlarnir geta ekki jafnað þær þar.

Á rúmum áratug hafa þær unnið spænsku deildina átta sinnum, spænska bikarinn átta sinnum, Meistaradeild Evrópu þrisvar sinnum og alls spilað sex af síðustu sjö úrslitaleikjum Meistaradeildarinnar.

Leikmenn Barcelona hafa líka unnið Gullknöttinn, Ballon d'Or Féminin, undanfarin fimm ár. Fyrst Alexia Putellas í tvö ár og svo Aitana Bonmatí undanfarin þrjú ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×