Handbolti

Loksins hægt að kaupa lands­liðs­treyjuna

Sindri Sverrisson skrifar
Íslensku landsliðin eru bæði á leið á stórmót á næstunni og nú geta stuðningsmenn loks verslað sér viðeigandi klæðnað.
Íslensku landsliðin eru bæði á leið á stórmót á næstunni og nú geta stuðningsmenn loks verslað sér viðeigandi klæðnað. Samsett/Vísir/Getty

Eftir vægast sagt langa bið geta aðdáendur íslensku handboltalandsliðanna nú loksins pantað sér nýju landsliðstreyjuna.

Á vef íþróttavöruverslunarinnar Boltamannsins er að minnsta kosti núna hægt að panta sér treyju. Fullorðinstreyja kostar þar 16.990 og barnatreyjan er á 14.990, og segir að áætlaður afhendingartími sé næsta mánudag. 

Það er rétt svo í tæka tíð fyrir HM kvenna því aðeins níu dagar eru þar til að kvennalandslið Íslands hefur keppni á HM í Þýskalandi, með leik við heimakonur í Stuttgart.

Í janúar er svo Evrópumót karla og ljóst að mikill fjöldi Íslendinga ætlar að mæta til Kristianstad og/eða Malmö til að styðja við strákana okkar.

Engar treyjur í almenna sölu fyrir ári

Hingað til hefur fólk ekki getað keypt sér nýjar landsliðstreyjur og sama staða var uppi á teningnum fyrir ári síðan, í aðdraganda EM kvenna og HM karla. Þá fóru á endanum aldrei neinar treyjur í sölu, nema að mjög takmörkuðu leyti.

Núna getur hinn almenni stuðningsmaður því, í fyrsta sinn frá því að HSÍ hætti samstarfi við Kempa og samdi við Adidas, keypt landsliðstreyju.

Eins og greint var frá síðastliðinn mánudag hefur Samherji nú bæst í hóp helstu styrktaraðila HSÍ. Á nýju landsliðstreyjunni eru einnig auglýsingar frá Boozt, Icelandair, Arion banka, Íslandshótelum, Lengjunni, Ísey skyri, 1xInternet, Arnarlaxi, Samskipum og Bílaleigu Akureyrar. Fyrr á árinu sleit HSÍ hins vegar samstarfi við fyrirtækið Rapyd og er merki þess ekki lengur á treyjunni.


Tengdar fréttir

Samherji verður einn helsti bakhjarl HSÍ

Sjávarútvegsfyrirtækið Samherji verður einn helsti samstarfsaðili Handknattleikssambands Íslands næstu árin. Nafn fyrirtækisins verður því á keppnistreyjum íslensku landsliðanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×