Erlent

Merz í vand­ræðum með ungliðana

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Meðal forsprakka ungliðanna er barnabarn Helmut Kohl.
Meðal forsprakka ungliðanna er barnabarn Helmut Kohl. Getty/Michael Kappeler

Ungliðahreyfing Kristilegra demókrata á þýska þinginu er sögð halda stjórnarbandalaginu í gíslingu vegna fyrirhugaðra breytinga á eftirlaunakerfinu.

Um er að ræða átján þingmenn sem segja fyrirhugaðar hækkanir á eftirlaunagreiðslum munu verða bagga á komandi kynslóðum. Málið er erfitt fyrir kanslarann Friedrich Merz, sem nýtur aðeins tólf sæta meirihluta í þinginu.

Taka á málið til atkvæðagreiðslu í desember.

Einn af forsprökkum ungliðanna er hinn 28 ára Johannes Volkmann en hann er barnabarn Helmut Kohl, sem var kanslari Þýskalands á árunum 1982 til 1998. Hann segir tillögurnar munum leiða til útgjaldahækkunar upp á 120 milljarða evra til 2040.

Þetta sé skuld sem næsta kynslóð muni þurfa að greiða.

Ungliðarnir njóta stuðnings fleiri þingmanna, sem hafa kallað eftir breytingum á frumvarpinu. Þannig liggur fyrir að Merz kunni að skorta 40 til 50 atkvæði til að ná málinu í gegn.

Kanslarinn virðist hins vegar ekki ætla að gefa eftir og sagði á fundi ungliðahreyfingarinnar um helgina að hann myndi greiða atkvæði með frumvarpinu, með hreina samvisku.

Eftirlaunaþegar fá núna um það bil 48 prósent launa sinna í eftirlaun en ungliðarnir vilja lækka hlutfallið í 47 prósent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×