Fótbolti

Norskur lands­liðs­maður í tveggja vikna skil­orðs­bundið fangelsi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andreas Schjelderup í leik með Benfica í Meistaradeildinni.
Andreas Schjelderup í leik með Benfica í Meistaradeildinni. Getty/Carlos Rodrigues

Norski landsliðsmaðurinn Andreas Schjelderup kom í dag fyrir rétt í Kaupmannahöfn og var dæmdur sekur fyrir að dreifa kynferðislegu efni.

Schjelderup var dæmdur í fjórtán daga skilorðsbundið fangelsi með eins árs skilorði. Hann þarf einnig að greiða málskostnað. Skilorð þýðir að hann má ekki fremja nýtt refsivert brot á næsta ári.

Landsliðsmaðurinn er ákærður fyrir að hafa deilt 27 sekúndna löngu myndbandi með kynferðislegu efni af einstaklingum yngri en átján ára á Snapchat þegar hann var nítján ára og spilaði í Danmörku. Hann er núna 21 árs.

Í réttinum útskýrði Schjelderup að hann vissi ekki hversu gamlir einstaklingarnir í myndbandinu væru, en að hann gæti séð að þeir væru yngri en átján ára.

Hann útskýrði einnig að hann hafi aðeins séð fyrstu sekúndurnar af myndbandinu og sent það áfram til vinahóps sem „lélegan brandara“. Hann sagðist sjálfur hafa fengið myndbandið frá öðrum vinahópi.

„Um leið og ég sendi það áfram til vina minna áttaði ég mig fljótt á því að það var auðvitað ólöglegt,“ sagði hann í réttinum.

Saksóknari hefur farið fram á að Schjelderup fái viðvörun um brottvísun frá Danmörku.

Norskir, danskir og portúgalskir fjölmiðlar voru á staðnum í borgardómi Kaupmannahafnar og málið hefur fengið mikla fjölmiðlaathygli. Vegna þess var réttarhaldið fært í stærri sal vegna mikils fjölmiðlaáhuga á málinu.

Það var í byrjun nóvember sem Schjelderup, sem spilar með portúgalska félaginu Benfica, birti nokkrar Instagram-sögur þar sem hann sagði frá ákærunni. Hann viðurkenndi brot sitt þar en með fyrrnefndum rökum.

Það þurfti því ekki að sanna sekt hans fyrir dóm og málið snérist um að ákveða refsinguna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×