Viðskipti innlent

Ís­lands­banki lækkar vexti

Lovísa Arnardóttir skrifar
Jón Guðni Ómarsson er bankastjóri Íslandsbanka.
Jón Guðni Ómarsson er bankastjóri Íslandsbanka. Vísir/Lýður

Íslandsbanki lækkar vexti inn- og útlána og tekur ný vaxtatafla gildi þann 24. nóvember, næsta mánudag. Í tilkynningu frá bankanum kemur fram að vaxtatafla Ergo muni taka gildi 21. nóvember, á föstudag.

Peningastefnunefnd tilkynnti í morgun ákvörðun sína um að lækka stýrivexti um 0,25 prósentustig. Í tilkynningu frá bankanum kemur fram að á húsnæðislánum muni fastir vextir til fimm ára á óverðtryggðum húsnæðislánum lækka um 0,20 prósentustig. Fastir vextir til þriggja ára á óverðtryggðum húsnæðislánum lækka um 0,35 prósentustig og fastir vextir á verðtryggðum húsnæðislánum lækka um 0,20 prósentustig

Þá lækka breytilegir vextir á óverðtryggðum húsnæðislánum um 0,25 prósentustig (ný lán ekki veitt) sömuleiðis á breytilegum vöxtum á verðtryggðum húsnæðislánum.

Í tilkynningu kemur einnig fram að óverðtryggðir og verðtryggðir kjörvextir á útlánum lækka um 0,25 prósentustig. Óverðtryggðir kjörvextir Ergo, vextir bílalána og bílasamninga lækka einnig um 0,25 prósentustig og sömuleiðis vextir á yfirdráttarlánum og greiðslukortum.

Þá lækka sömuleiðis vextir á óverðtryggðum og verðtryggðum sparnaðarreikningum um 0,25 prósentustig og á veltureikningum sömuleiðis.

„ Breytingarnar sem falla undir lög um neytendalán eða lög um fasteignalán til neytenda taka gildi í samræmi við skilmála lánanna og tilkynningar um vaxtabreytingar. Það sama gildir um breytingar á vöxtum innlána sem falla undir lög um greiðsluþjónustu,“ segir að lokum í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×