Körfubolti

Valur fær manninn sem tryggði Tinda­stóli titilinn á Hlíðar­enda

Sindri Sverrisson skrifar
Keyshawn Woods þekkir það að fagna dísætum sigrum á Hlíðarenda.
Keyshawn Woods þekkir það að fagna dísætum sigrum á Hlíðarenda. Vísir/Hulda Margrét

Keyshawn Woods á afar kærar minningar af fjölunum á Hlíðarenda og nú er þessi bandaríski körfuboltamaður búinn að semja um að snúa aftur til Íslands og spila fyrir Val.

Woods er maðurinn sem tryggði Tindastóli sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil þegar hann ískaldur, setti niður öll þrjú vítaskot sín undir lok oddaleiks gegn Val á Hlíðarenda, vorið 2023.

Hann lék með Tindastóli á árunum 2022-24 en hefur nú samið um að spila fyrir Val.

Griffin sendur heim

Woods kemur í staðinn fyrir Ladarien Griffin sem leystur var undan samningi enda aðeins leyfilegt að hafa einn leikmann á skýrslu sem ekki er frá Evrópu. Griffin hafði verið gagnrýndur mikið í Körfuboltakvöldi og þóttust menn snemma vissir um að hann yrði ekki út tímabilið með Val.

„Við erum mjög spenntir að fá Keyshawn til liðs við okkur,“ segir Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari Vals, í tilkynningu félagsins.

„Hann er öflugur á báðum endum vallarins og hentar vel okkar leikstíl. Hann er líka þekkt stærð, þekkir deildina vel og hefur sýnt að hann er ekki hræddur við stóru mómentin. Eitthvað sem við höfum fengið að kynnast heldur betur en nú fáum við að njóta þess vonandi í staðinn,“ sagði Finnur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×