Sport

Ætla ekki í stríð: Daníel þarf ekki að óttast breytingar lengur

Aron Guðmundsson skrifar
Daníel Ingi Egilsson, Íslandsmethafi í langstökki
Daníel Ingi Egilsson, Íslandsmethafi í langstökki

Alþjóða frjálsíþróttasambandið hefur ákveðið að hætta við fyrirætlanir sínar um að breyta útfærsli á stökksvæði í langstökki. Framkvæmdastjóri sambandsins segir það með þessu vera að forða sér undan stríði við langstökkvara.

Fyrr á árinu var greint frá því að Alþjóða frjálsíþróttasambandið væri að íhuga að gera þessar breytingar á greininni sem hefði gert stökkvurunum sjálfum kleift að stökkva innan stærra svæðis.

Hvað hefði breyst? 

Núverandi planki, sem hefur verið við lýði til fjölda ára, saman­stendur af þrjátíu sentí­metra svæði þar sem að langstökkvarar fá tuttugu sentí­metra af hvítu svæði til þess að stökkva af til að stökkið teljist gilt. Í fram­haldi af sentí­metrunum tuttugu tekur við tíu sentí­metra svæði í öðrum lit sem er svæði sem myndi gera stökkið ógilt ef stokkið er þaðan. Ef Alþjóða frjálsíþrótta­sam­bandsins hefði innleitt sínar hugmyndir þá yrði núverandi planka hent í burtu og við tæki fjörutíu sentí­metra stökksvæði sem langstökkvarar mættu stökkva innan til þess að fram­kvæma gilt stökk.

Í tengslum við þetta ræddi íþróttadeild við einn fremsta langstökkvara landsins, Daníel Inga Egilsson, sem sagði í febrúar fyrr á þessu ári að hann væri alls ekki hrifinn af þessari hugmynd. „Mér finnst hún í raun alveg út í hött,“ bætti Daníel við.

Daníel var ekki eini langstökkvarinn sem setti sig upp á móti téðum hugmyndum Alþjóða frjálsíþróttasambandsins og virðist gagnrýni stökkvaranna hafa ýtt við forráðamönnum sambandsins.

„Raunveruleikinn er sá að íþróttafólkið vill ekki þessar breytingar,“ segir Joe Ridgeon, framkvæmdastjóri Alþjóða frjálsíþróttasambandsins í samtali við The Guardian. „Þar af leiðandi munum við ekki innleiða þessa hugmynd. Í enda dags ferðu ekki í stríð við mikilvægasta fólk greinarinnar.“

Hann segir sambandið ekki sjá eftir því að hafa farið í þá vinnu að reyna koma á breytingum í greininni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×