Handbolti

„Bara súrrealískt og eitt­hvað sem ég mun aldrei gleyma“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gunnar Birgisson, Þorlákur Árnason, Guðmundur Benediktsson og Hjálmar Örn Jóhannsson hlógu mikið þegar Guðmundur Guðmundsson sagði hvað hann gerði eftir að hann vann Ólympíugullið.
Gunnar Birgisson, Þorlákur Árnason, Guðmundur Benediktsson og Hjálmar Örn Jóhannsson hlógu mikið þegar Guðmundur Guðmundsson sagði hvað hann gerði eftir að hann vann Ólympíugullið. Sýn Sport

Gummi Ben bað Gumma Gumm um að velja á milli Ólympíusilfursins og Ólympíugullsins.



Guðmundur Benediktsson spurði nafna sinn Guðmund Guðmundsson að erfiðri spurningu þegar fyrrum landsliðsþjálfari Íslands og Danmerkur í handbolta mætti í Big Ben-þáttinn.

„Silfur með Íslandi eða gull með Dönum,“ spurði Guðmundur Benediktsson og vildi fá Guðmund til að segja hvort hafi verið stærra fyrir Guðmund.

Stórkostlegt ævintýri með Íslandi

„Vá, þetta er svo ólíkt. Silfrið var svo stórkostlegt ævintýri með Íslandi og kannski í fyrsta skipti sem Ísland vann til verðlauna í handboltasögunni. Það var eitthvað svo fallegt og stórkostlegt og móttökurnar hérna heima og allt þetta,“ sagði Guðmundur Guðmundsson.

Klippa: Gummi Ben bað Gumma Gumm um að velja á milli silfursins og gullsins

„Hins vegar verð ég að játa það, að vinna síðan gull eftir það að tapa úrslitaleik, það var bara súrrealískt og eitthvað sem ég mun aldrei gleyma,“ sagði Guðmundur sem gerði Dani að Ólympíumeisturum í Ríó 2016.

Á meðan dönsku landsliðsmennirnir fögnuðu sigrinum saman þá var þjálfari þeirra hvergi sjáanlegur í partýinu.

Grét einn upp á hótelherbergi

„Þetta var svo skrítið. Ég fór ekki að skemmta mér eins og allir þarna eftir leikinn þegar við unnum gullið. Ég fór bara upp á hótelherbergi og horfði á leikinn tvisvar,“ sagði Guðmundur.

„Ég vildi bara njóta augnabliksins og ég sé ekki eftir því. Ég átti bara móment með sjálfum mér þarna. Svo hringdi maður bara í fjölskylduna, skilurðu, og maður bara grét. Þetta er ótrúlegt móment,“ sagði Guðmundur.

Það má horfa á þetta myndbrot úr Big Ben hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×