Handbolti

Svartfjallaland fylgir frá­bærum Þjóð­verjum á­fram

Valur Páll Eiríksson skrifar
Þær þýsku hafa spilað einkar vel á mótinu hingað til.
Þær þýsku hafa spilað einkar vel á mótinu hingað til. Alex Gottschalk/DeFodi Images/DeFodi via Getty Images

Þýskaland fer með fullt hús stiga í 8-liða úrslit á HM kvenna í handbolta. Svartfjallaland fylgir þeim þýsku upp úr riðli Íslands á mótinu.

Grannþjóðirnar Serbía og Svartfjallaland háðu hálfgerðan úrslitaleik um sæti í 8-liða úrslitum keppninnar fyrr í dag þar sem Serbum dugði sigur fyrir sæti á meðal átta bestu. Svartfellingar þurftu að treysta á önnur úrslit.

Skemmst er frá því að segja að þær svartfellsku hreinlega léku sér að serbnesku liði sem sá aldrei til sólar. Svartfjallaland vann 16 marka sigur, 33-17, og var þar af leiðandi í öðru sæti með sex stig og Serbía úr leik.

Spánn gat tekið annað sætið af Svartfjallalandi með sigri á taplausum heimakonum Þjóðverja síðdegis en snemma varð ljóst að ekki yrði af því. Þýskaland vann 29-25 sigur sem var aldrei í hættu.

Þar af leiðandi vinnur Þýskaland riðilinn með fullt hús stiga og Svartfjallaland fylgir þeim þýsku áfram í 8-liða úrslitin á meðan Serbía og Spánn sitja eftir.

Færeyjar geta stokkið upp fyrir Serbíu og Spán í riðlinum með sigri á Íslandi í kvöld en sá leikur hefst klukkan 19:30 og verður lýst beint hér á Vísi. Ísland leitar þar fyrsta sigursins í milliriðlinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×