Það var seint í gærkvöldi sem stjórn Íslandsbanka tilkynnti að krafa hefði borist frá hluthöfum sem eiga samanlagt meira en fimm prósenta hlut í bankanum um að boðað yrði hluthafafundar – það þarf að gerast innan fjórtán daga frá því að slík krafa berst – þar sem stjórnarkjör verður sett á dagskrá.
Fyrr sama dag hafði Linda Jónsdóttir, sem hefur verið stjórnarformaður Íslandsbanka því sumarið 2023, greint frá því að hún myndi ekki sækjast eftir endurkjöri á næsta aðalfundi.
Viðbrögð fjárfesta á markaði við þeim tíðindum að til stæði að boða til snemmbúins stjórnarkjörs í Íslandsbanka voru þau að selja bréf í Skaga en fjármálafyrirtækin tvö eiga sem kunnugt er í samrunaviðræðum. Hlutabréfaverð Skaga lækkaði mest um ellefu prósent í dag en heldur dró úr þeim lækkunum þegar leið á daginn og við lokun markaða stóð gengið í 21 krónu á hlut – og var þá niður um ríflega sjö prósent í nærri 500 milljóna veltu. Gengi bréfa Íslandsbanka er núna 142 krónur á hlut eftir að hafa lækkað lítillega í tæplega tveggja milljarða veltu.
Sá hluthafi sem hafði frumkvæði að því setja fram kröfu um boðað yrði til hluthafafundar og stjórnarkjörs – í samfloti með öðrum fjárfestum – var Heiðar Guðjónsson. Eftir að hafa verið að byggja upp stöðu í bankanum um nokkurt skeið var Heiðar í lok október orðinn stærsti einkafjárfestirinn en fjárfestingafélagið hans Ursus átti þá samtals 15,5 milljónir hluta að nafnvirði, eða sem jafngilti yfir 0,8 prósenta eignarhlut. Markaðsvirði þess hlutar í dag er um 2,2 milljarðar.
Á síðustu dögum og vikum hefur hlutabréfaverð Íslandsbanka hækkað skarpt – frá því snemma í nóvember er gengishækkunin um 20 prósent – samhliða verulega aukinni veltu.
Krafa Heiðars og annarra fjárfesta, einkum úr röðum einkafjárfesta í hluthafahópnum og vogunarsjóðnum Seiglu sem er stýrt af Rafni Viðari Þorsteinssyni, kemur í kjölfar þess að hann hefur að undanförnu nálgast ýmsa af stærri hluthöfum í því skyni að kanna mögulegan stuðning við framboð sitt til stjórnar Íslandsbanka. Í bréfi sem hann sendi á suma hluthafa, meðal annars lífeyrissjóði sem eru stórir fjárfestar í bankanum, hefur Heiðar sagst vilja hafa áhrif á þá stefnumótunarvinnu sem er að fara af stað hjá bankanum. Þá hefur hann vísað til þess að óeðlilegt sé við þær aðstæður að þrír stjórnarmenn af sjö talsins eigi umboð sitt að rekja til tilnefningar Bankasýslu ríkisins en ríkissjóður seldi sem kunnugt er eftirstandandi 42,5 prósenta hlut sinn í Íslandsbanka síðastliðið vor.
Þeir þrír stjórnarmenn sem voru á sínum tíma tilnefndir af Bankasýslunni eru Agnar Tómas Möller, Haukur Örn Birgisson og Valgerður Hrund Skúladóttir.
Snemma í október var tilkynnt um formlegar samrunaviðræður Íslandsbanka og Skaga og áætlanir gera ráð fyrir að samlegðaráhrif af þeim viðskiptum geti numið um 1,8 til 2,4 milljörðum á ári. Áreiðanleikakönnunarferli stendur núna yfir og væntingar standa til þess að hægt verði að ljúka viðskiptunum á níu til tólf mánuðum. Í þeim skilmálum er gert ráð fyrir að hluthafar Skaga eignist 15 prósent hlut í sameinuðu félagi. Það endurspeglar viðskiptagengið 21,18 krónur á hvern hlut í Skaga og 124 krónur á hlut fyrir Íslandsbanka.
Íslandsbanki ræður yfir verulega miklu umfram eigið fé, eða sem nemur meira en fjörutíu milljörðum króna, og hefur verið að ráðstafa þeim fjármunum til að hluta til hluthafa með umfangsmiklum endurkaupum. Þegar bankinn kynnti uppgjör sitt fyrir þriðja ársfjórðung í lok október kom fram að stjórnendur ætluðu jafnframt að nýta að stórum hluta þetta umfram eigið fé til að sækja fram í erlendum lánveitingum.
Þannig er stefnt að því að greiða um 10 til 20 milljarða til hluthafa með kaupum á eigin bréfum, líkt og bankinn hefur verið að gera undanfarnar vikur og mánuði, en meirihlutinn verði síðan nýttur til að sækja fram á erlendum mörkuðum. Bankinn segist ætla að ráðstafa 0 til allt að 15 milljörðum í vöxt utan Íslands á sviðum sem styðja við núverandi starfsemi og síðan eigi 10 til 20 milljarðar af þessu umfram eigið fé að fara í sérhæfðar lánveitingar á erlendum mörkuðum í gegnum sambankalán.
Með efasemdir um samruna við Skaga
Heiðar hefur lýst því yfir opinberlega, til dæmis í hlaðvarpsþáttum, að hann sé hlynntur því að bankinn leggi áfram áherslu á að kaupa til baka eigin bréf og í viðtali við þáttastjórnendur Chess After Dark síðastliðið sumar sagðist hann vonast eftir að ekkert yrði af samrunaviðræðum við Kviku sem þá voru til skoðunar. Vitað er að Heiðar hefur viðrað efasemdir um sumt sem lýtur að fyrirhuguðum samruna bankans og Skaga, meðal annars þegar kemur að verðlagningu félaganna í þeim skiptihlutföllum sem hafa verið kynnt.
Hin mikla lækkun á gengi bréfa Skaga á markaði tengist því áhyggjum fjárfesta að möguleg innkoma Heiðars og annarra fjárfesta í stjórn Íslandsbanka kunni að hafa einhver áhrif á þær samrunaviðræður, hvort sem þeim verður þá slitið eða reynt að gera breytingar á skilmálum þeirra.
Þegar stjórn Íslandsbanka mun á næstu dögum tilkynna um sérstakan hluthafafund þá þarf að boða til hans með að lágmarki þriggja vikna fyrirvara en að hámarki fjögurra vikna. Að óbreyttu er því ljóst að fyrirhugað stjórnarkjör í bankanum mun fara fram í janúar á nýju ári. Ólíklegt er að sérstök tilnefningarnefnd muni taka til starfa í tengslum við það stjórnarkjör sem gæti þá ýtt undir áhuga fleiri fjárfesta í hluthafahópnum til bjóða sig fram í stjórnina.
Sé litið á eignarhlut tuttugu stærstu hluthafa Íslandsbanka þá fara lífeyrissjóðir í þeim hópi samanlagt með í kringum 45 prósenta hlut. Engir innlendir einkafjárfestar eða verðbréfasjóðir ráða yfir eins prósenta hlut í bankanum.


