Fótbolti

Saka for­seta FIFA um í­trekuð brot og fara fram á rann­sókn

Aron Guðmundsson skrifar
Samtökin FairSquare eru allt annað en sátt við það hvernig Gianni Infantino hagað störfum sínum upp á síðkastið
Samtökin FairSquare eru allt annað en sátt við það hvernig Gianni Infantino hagað störfum sínum upp á síðkastið Vísir/Getty

Form­leg kvörtun hefur verið send til siða­nefndar Alþjóðaknatt­spyrnu­sam­bandsins (FIFA) og þar full­yrt að for­seti sam­bandsins, Gianni Infantino, hafi ítrekað brotið á hlut­leysis­skyldu sinni þegar kemur að stjórn­málum. Er þess enn fremur krafist að rannsókn fari fram á ferlinu sem leiddi til þess að Donald Trump, for­seti Bandaríkjanna, hlaut fyrstu friðar­verð­laun FIFA.

Kvörtunin barst frá hagsmunasamtökunum FairSquare sem einblína jafnan á alþjóðleg réttindi flóttafólks, aðgerðir gegn pólitískri kúgun sem og íþróttum. 

The Athletic hefur undir höndunum átta blaðsíðna kvörtun sem FairSquare sendi inn á borð siðanefndar FIFA en aðalhlutverk hennar er að kanna möguleg brot á þeim siðareglum sem sambandið starfar eftir. 

Í kvörtun FairSquare varpa samtökin ljósi á fjögur meint brot Infantino á hlutleysisskyldu sem hvílir á hans herðum sem forseti FIFA. 

Öll snúa þau að opinberum stuðningsyfirlýsingum Infantino við  Donald Trump, Bandaríkjaforseta í mismunandi málum en í siðareglum FIFA segir að sambandið eigi að gæta hlutleysis þegar kemur að stjórnmálum og trúmálum. Þess er krafist af öllum þeim sem gegna störfum fyrir sambandið að þeir gæti hlutleysis þegar við kemur samskiptum við fulltrúa og stofnanir ríkja.  

Heimsmeistaramót karla í fótbotla fer fram í Bandaríkjunum, Kanada og Mexíkó á næsta ári og undanfarið ár hefur Infantino ítrekað heimsótt Trump í Hvíta Húsið. 

Trump og Infantino á dögunum þegar dregið var í riðla fyrir komandi heimsmeistaramót og Trump fékk fyrstu friðarverðlaun FIFAVísir/Getty

Áður en að dregið var í riðla mótsins í síðustu viku var það kunngjört að sérstök friðarverðlaun FIFA yrðu veitt í fyrsta skipti þegar dregið yrði í riðla. 

Vissu flestir á þeim tímapunkti að Donald Trump myndi hljóta friðarverðlaunin en hann hafði sjálfur kallað eftir því að fá friðarverðlaun Nóbels fyrr á árinu en fékk ekki. 

Ferlið sem leiddi að þeirri niðurstöðu að hann varð fyrir valinu hjá FIFA liggur ekki alveg ljóst fyrir og vilja FairSquare að farið verði í rannsókn á því ferli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×