Bíó og sjónvarp

Lawrence og Hutcherson snúa aftur í Hungurleikana

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Hutcherson og Lawrence verða með þó hlutverkin verði sennilega ekki stór.
Hutcherson og Lawrence verða með þó hlutverkin verði sennilega ekki stór.

Jennifer Lawrence og Josh Hutcherson, sem urðu að Hollywood-stjörnum með Hungurleikafjórleiknum frá 2012 til 2015, munu snúa aftur í seríuna í nýrri mynd sem fjallar um Haymitch Abernathy, læriföður Katniss Everdeen.

Sú heitir The Hunger Games: Sunrise on the Reaping, byggir á samnefndri bók Suzanne Collins og er væntanlega í bíóhús í nóvember 2026. Kvikmyndabransamiðillinn The Hollywood Reporter greinir frá.

Sunrise on the Reaping gerist að morgni fimmtugustu Hungurleikanna, 24 árum fyrir atburði fyrstu myndarinnar. Lawrence mun snúa aftur sem Katniss Everdeen og Hutcherson sem Peeta Mellark. Líklegt er að þeim muni bregða fyrir í einhvers konar framspóli, jafnvel í stakri senu í lokin. Hins vegar er ekkert öruggt í þeim efnum þar sem engar frekari upplýsingar liggja fyrir.

Francis Lawrence mun leikstýra myndinni líkt og síðustu fjórum Hungurleikamyndum (öllum nema þeirri fyrstu) en leikhópurinn er stjörnum prýddur. Þar má nefna Ralph Fiennes í hlutverki Snow forseta, Jesse Plemons sem Plutarch Heavensbee, Kieran Culkin sem Caesar Flickerman, Elle Fanning sem Effie Trinket og Joseph Zada sem ungur Abernathy.

Myndin er beint framhald The Hunger Games: The Ballad of Songbirds & Snakes sem kom út 2023 með Rachel Zegler, Tom Blyth og Hunter Schafer í aðalhlutverkum og fjallaði um æskuár Snow forseta.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.