Innlent

Land­helgis­gæslan eignast sjálfstýrða kaf­báta

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Stefán Reynisson, framkvæmdastjóri Teledyne Gavia, og Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslu Íslands.
Stefán Reynisson, framkvæmdastjóri Teledyne Gavia, og Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslu Íslands. Landhelgisgæslan

Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslu Íslands, tók formlega á móti ómannaða neðansjávarfarinu GAVIA AUV í dag, en um er að ræða sjálfstýrðan kafbát sem getur kortlagt hafsbotninn og hluti sem þar eru með hliðarsónar niður í að minnsta kosti 300 metra dýpi.

Í tilkynningu Landhelgisgæslunnar segir að prófanir hafi farið fram á neðansjávarfarinu síðastliðið sumar þar sem lagnaleiðir tveggja nýrra rafstrengja til Vestmannaeyja voru kannaðar með búnaði farsins sem og lagnaleið rafstrengs yfir Arnarfjörð.

Stefán Reynisson, framkvæmdastjóri Teledyne Gavia, afhenti gæslunni farið.

Teledyne Gavia er íslenskt fyrirtæki sem framleiðir kafbátana, en tækni þeirra nýtist meðal annars í vísindarannsóknir, vöktun mikilvægra innviða og við sprengjuleit.

Fréttastofa fjallaði um Teledyne Gavia og starfsemi þeirra fyrr á árinu.

Farið verði gert út frá varðskipum

Í tilkynningu segir að neðansjávarfarið verði gert út frá varðskipum Landhelgisgæslunnar og sjónmælingaskipinu Baldri.

„Á undanförnum vikum hafa farið fram uppfærslur og viðbætur á neðansjávarfarinu sem fjármagnaðar voru af utanríkisráðuneytinu.“

„Neðansjávarfarið mun nýtast Landhelgisgæslunni við hin ýmsu verkefni leitar og könnunar á hafsvæðinu umhverfis landið, til eftirlits og öryggisgæslu og einnig í tengslum við varnartengd verkefni. Teledyne Gavia er íslenskt fyrirtæki sem hefur sérhæft sig í framleiðslu slíks búnaðar um árabil,“ segir í tilkynningu Landhelgisgæslunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×