Fótbolti

Launað ríku­lega fyrir að koma Norð­mönnum á HM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ståle Solbakken stýrði Noregi til afar öruggs sigurs í undanriðli fyrir HM í fótbolta. Liðið verður því loksins með á stærsta sviðinu, eftir tæplega 28 ára bið.
Ståle Solbakken stýrði Noregi til afar öruggs sigurs í undanriðli fyrir HM í fótbolta. Liðið verður því loksins með á stærsta sviðinu, eftir tæplega 28 ára bið. Getty/Marco Luzzani

Ståle Solbakken landsliðsþjálfari Norðmanna mun ekki kveðja á HM næsta sumar því nú er ljóst að hann heldur áfram sem þjálfari Noregs.

Solbakken og norska knattspyrnusambandið héldu saman blaðamannafund þar sem tilkynnt var að Solbakken hafi ákveðið að halda áfram sem þjálfari karlalandsliðsins

„Það er ánægjulegt að fá að tilkynna að við höfum framlengt samninginn við Ståle Solbakken sem landsliðsþjálfara. Við vorum aldrei í vafa,“ sagði Lise Klaveness, forseti norska knattspyrnusambandsins, á blaðamannafundinum.

„Ståle Solbakken er tvímælalaust rétti maðurinn til að leiða þessa frábæru kynslóð áfram og við erum mjög ánægð með að þú hafir þegið boðið um að leiða liðið áfram eftir HM og fram að mögulegu EM 2028,“ sagði Klaveness og beinir orðum sínum að Solbakken.

Hinn 57 ára gamli þjálfari hefur skrifað undir framlengingu á samningi sem nú gildir til og með EM 2028.

Solbakken sagði um leið að það væri afar ólíklegt að hann haldi áfram lengur en það.

„Ástæðan fyrir því að ég segi já er sú að NFF er á mjög góðum stað. Við erum með frábæran forseta. Við erum með leikmannahóp sem er unun að vinna með. Ég væri að ljúga ef ég segði að stuðningur þeirra hefði ekki skipt máli,“ sagði Solbakken sjálfur.

Solbakken er með það á hreinu hvað hvatti hann til að halda áfram í þjálfarastólnum.

„Þetta snýst um hvað mig langar mest til að gera. Við erum á leið á HM og eftir það munum við aðeins spila við bestu liðin í Þjóðadeildinni. Við höfum komist upp um deild þar og það verða frábærir leikir. Svo kemur spennandi undankeppni fyrir EM og vonandi EM,“ sagði Solbakken.

Klaveness greindi líka frá því að ný laun Solbakkens séu tíu milljónir norskra króna á ári, auk mögulegs bónus upp á fimm milljónir ef Noregur kemst á EM. Tíu milljónir eru 125 milljónir íslenskra króna og því meira en tíu milljónir í mánaðarlaun.

„Við erum að færast inn í nýja tíma á margan hátt. Við erum að greiða laun sem eru tveggja stafa milljónatala. Það höfum við aldrei gert áður,“ sagði Karl-Petter Løken, framkvæmdastjóri NFF.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×