Skoðun

Hvernig varð staðan svona í Hafnar­firði?

Einar Geir Þorsteinsson skrifar

Fjárhagsáætlun Hafnarfjarðar fyrir árið 2026 hefur verið kynnt, en eins og oft áður einkennist hún frekar af jákvæðum frösum en raunverulegum efnisatriðum. Samkvæmt greinargerð með áætluninni er bærinn í blóma og ábyrgar ákvarðanir sagðar hafa verið teknar í hvívetna. Þegar tölurnar eru skoðaðar nánar, stenst þessi mynd þó enga skoðun.

Það er staðreynd að Hafnarfjörður hefur tekið við mun fleiri hælisleitendum en nágrannasveitarfélögin og er kostnaður sveitarfélagsins vegna málaflokksins orðinn verulegur.

Samkvæmt upplýsingum sem Miðflokkurinn hefur fengið frá sveitarfélaginu nemur beinn kostnaður Hafnarfjarðarbæjar vegna málaflokksins tæplega fimm milljörðum króna á síðustu fimm árum. Til samanburðar hefur beinn kostnaður Garðabæjar vegna sama málaflokks á sama tímabili verið innan við 500 milljónir króna. Þá er launakostnaður Hafnarfjarðarbæjar á síðustu tveimur árum, vegna starfsfólks sem sinnir málaflokknum, hærri en allur samanlagður heildarkostnaður Garðabæjar vegna málaflokksins frá árinu 2019.

Til að setja þessar tölur í samhengi má nefna að áætlaður kostnaður við frístundastyrki allra barna í Hafnarfirði árið 2026 er um 260 milljónir króna.

Þessi þróun hefur, eðli málsins samkvæmt, skapað mikinn þrýsting á innviði sveitarfélagsins. Á síðustu fimm árum hafa um tvö þúsund einstaklingar með ríkisfang utan EES-svæðisins fengið fjárhagsaðstoð í Hafnarfirði. Árið 2024 fór um 70% allrar fjárhagsaðstoðar sveitarfélagsins til erlendra ríkisborgara. Þá hafa 177 einstaklingar fengið lán vegna fyrirframgreiðslu húsaleigu á sama tímabili, en aðeins þrír þeirra voru með íslenskt ríkisfang.

Þetta eru staðreyndir sem eðlilegt hefði verið að væru meðal helstu álitamála á bæjarstjórnarfundum Hafnarfjarðarbæjar. Því er nær ótrúlegt að málið hafi varla verið tekið til umræðu og að það hafi í reynd þurft frumkvæði Miðflokksins í Hafnarfirði til að vekja athygli á stöðunni. Bæði meiri- og minnihluti hefðu átt að láta sig þessa þróun varða og gera að forgangsmáli. Í stað þess hefur bæjarstjórnin látið hjá líða að bregðast við og leyft þróuninni að halda áfram óátalinni.

Það er ekkert náttúrulögmál að Hafnfirðingar þurfi að sætta sig við þessa stöðu. Enn er hægt að snúa þessari þróun við, og þar kæmi Miðflokkurinn sterkur inn. Það myndi muna verulega um Miðflokkinn í bæjarstjórn Hafnarfjarðar.

Höfundur er formaður stjórnar Miðflokksins í Hafnarfirði.




Skoðun

Sjá meira


×