Handbolti

Langri þrauta­göngu Þýska­lands lokið

Sindri Sverrisson skrifar
Antje Döll raðaði inn mörkum fyrir Þýskaland í dag.
Antje Döll raðaði inn mörkum fyrir Þýskaland í dag. Getty/Jürgen Fromme

Eftir 32 ára bið mun Þýskaland leika til úrslita á ný á HM kvenna í handbolta á sunnudaginn, eftir að hafa slegið ríkjandi heimsmeistara Frakklands út í dag.

Þær þýsku áttu frábæran leik gegn Frökkum í Rotterdam í dag og enduðu á að vinna sex marka sigur, 29-23, eftir að hafa haft yfirhöndina allan leikinn. 

Smáspenna myndaðist undir lokin þegar Frakkar minnkuðu muninn í þrjú mörk en nær komst liðið ekki.

Antje Döll var maður leiksins og skoraði níu mörk úr tíu skotum fyrir Þýskaland. Emily Vogel og Viola Leuchter skoruðu fimm mörk hvor. Hjá Frökkum voru Sarah Bouktit og Léna Grandveau markahæstar með fimm mörk hvor.

Þýskaland hefur ekki unnið til verðlauna á stórmóti síðan á EM 2008, eftir brons á HM 2007, en nú er ljóst að þær þýsku fá annað hvort gull eða silfur um hálsinn á sunnudaginn.

Frakkar, sem orðið hafa heimsmeistarar þrisvar og komist í úrslitaleikinn í þrjú af síðustu fjórum skiptum, verða hins vegar að gera sér að góðu að spila um bronsverðlaunin.

Holland og Noregur mætast í kvöld í seinni undanúrslitaleiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×