Erlent

Witkoff fundar með Selenskí

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Steve Witkoff og Jared Kushner, tengdasonur Trumps, á fundi með rússneskum yfirvöldum fyrr í mánuðinum.
Steve Witkoff og Jared Kushner, tengdasonur Trumps, á fundi með rússneskum yfirvöldum fyrr í mánuðinum. AP

Steve Witkoff, sérstakur erindreki og samningamaður Bandaríkjastjórnar í friðarviðræðum Úkraínu og Rússlands, fundar í Berlín um helgina með Volodomír Selenskí Úkraínuforseta og nokkrum Evrópuleiðtogum. Ríkisstjórn Donalds Trump vill að samkomulag náist um frið fyrir jól, en helsti ásteytingarsteinninn virðist vera möguleg eftirgjöf hernumdra svæða í austurhluta Úkraínu til Rússlands.

Ekki liggur fyrir hvaða leiðtogar Evrópu koma til með að sitja fundinn, en samkvæmt Wall Street Journal munu Keir Starmer forsætisráðherra Bretlands, Emmanuel Macron Frakklandsforseti, og Friedrich Merz Þýskalandskanslari allir vera viðstaddir.

Fundurinn er haldinn nokkrum dögum eftir að Úkraínumenn afhentu Bandaríkjastjórn endurskoðaða útgáfu af friðaráætluninni sem Bandaríkjamenn lögðu fram fyrr í mánuðinum.

Bandaríkjamenn lögðu fram friðaráætlun í 28 liðum undir lok síðasta mánaðar sem fól meðal annars í sér eftirgjöf Donbas-héraðs í austurhluta Úkraínu.

Samkvæmt nýrri tillögu Bandaríkjamanna myndi sá hluti Donbas-héraðs sem Rússar hafa ekki sölsað undir sig nú þegar verða fríverslunarsvæði, sem Rússar fengju ekki yfirráð yfir.

Selenskí sagðist ekki telja tillöguna sanngjarna nema hún myndi fela í sér tryggingu fyrir því að Rússar tækju ekki svæðið yfir eftir að Úkraínuher yfirgæfi það.

Samkvæmt umfjöllun BBC hafa Selenskí og aðrir Evrópuleiðtogar látið hafa eftir sér að friðarumleitanir Bandaríkjastjórnar undanfarnar vikur hafi borið árangur, en þó sé engin niðurstaða í sjónmáli.

Í vikunni hraunaði Donald Trump yfir Evrópu, sem hann sagði í hnignun, og hún væri leidd af veikburða leiðtogum.


Tengdar fréttir

Rýnt í stöðuna í Úkraínu: Óvinafögnuður Trumps og Pútíns

Viðræður um frið í Úkraínu virðast enn engum árangri ætla að skila, nema kannski fyrir Vladimír Pútín, forseta Rússlands. Samband Bandaríkjanna og Evrópu hefur beðið mikla hnekki á undanförnum vikum og Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, er sífellt líklegri til að þvo hendur sínar alfarið af stríðinu í Úkraínu.

Hraunar yfir „hnignandi“  heimsálfu

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, telur Evrópu í hnignun og að heimsálfan sé leidd af „veikburða“ leiðtogum og sumum heimskum. Hann gerir lítið úr Evrópumönnum fyrir að stöðva ekki flæði innflytjenda til heimsálfunnar og fyrir að geta ekki bundið enda á innrás Rússa í Úkraínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×