Sport

Pogba dreymir um að eiga dýrasta úlfalda heims

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Paul Pogba er laus úr löngu banni eftir að hafa fallið á lyfjaprófi og farinn að spila með Mónakó. 
Paul Pogba er laus úr löngu banni eftir að hafa fallið á lyfjaprófi og farinn að spila með Mónakó.  Getty/Andrea Staccioli

Franska fótboltastjarnan Paul Pogba hefur fjárfest í atvinnuliði sem keppir í úlfaldakapphlaupi. Hann hefur mikinn metnað fyrir að ná árangri í íþróttinni í framtíðinni.

Í viðtali við breska ríkisútvarpið sagði þessi 32 ára gamli leikmaður frá því að hann væri orðinn hluthafi og sendiherra úlfaldakapphlaupsliðsins Al Haboob. Það er fyrsta atvinnuliðið sem hóf keppni í úlfaldakapphlaupi.

„Ég hef horft á nokkur úlfaldakapphlaup á YouTube og notað frítíma minn í að rannsaka og skilja tæknina og herkænskuna,“ sagði Paul Pogba.

Úlfaldakapphlaup eiga margt sameiginlegt með hestakappreiðum. Knapar ríða úlföldum um hringbraut og keppa sín á milli um að ljúka ákveðnum fjölda hringja á sem skemmstum tíma. Íþróttin er sérstaklega vinsæl í Miðausturlöndum.

„Að eiga dýrasta úlfalda heims einn daginn yrði falleg stund. Það er eitthvað skemmtilegt, eitthvað þýðingarmikið og eitthvað sem gleður mig. Kannski tekst okkur það einn daginn,“ segir Pogba.

Hinn 32 ára gamli Paul Pogba er að koma til baka eftir langt lyfjabann og fyrsti leikur hans fyrir franska félagið Mónakó á dögunum var hans fyrsti leikur í 811 daga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×