Enski boltinn

„Sé ekkert annað en að dýrasti leik­maður deildarinnar verði á­fram á bekknum“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Alexander Isak hefur staðið í skugga Hugos Ekitike það sem af er tímabili.
Alexander Isak hefur staðið í skugga Hugos Ekitike það sem af er tímabili. getty/Liverpool FC

Sérfræðingar Sunnudagsmessunnar eru hrifnir af Hugo Ekitike og telja farsælla að hann byrji inn á í framlínu Liverpool frekar en Alexander Isak.

Ekitike skoraði bæði mörk Liverpool í sigrinum á Brighton á Anfield á laugardaginn, 2-0. Frakkinn hefur skorað fjögur mörk í síðustu tveimur deildarleikjum Rauða hersins. 

Kjartan Henry er hrifinn af því hversu beinskeyttur Ekitike er.

„Það er ótrúlegur kraftur í honum. Mér fannst ég líka sjá, sérstaklega eftir að [Mohamed] Salah kom inn á, að hann er rosalega eigingjarn. Hann sér bara markið og skýtur á markið og það er ekkert alltaf sem liðsfélagarnir eru í skýjunum með ákvarðanatökurnar,“ sagði Kjartan Henry í Sunnudagsmessunni í gær.

Klippa: Messan - umræða um Ekitike og Isak

„Hann skapar líka pláss fyrir aðra. Hann er mjög hreyfanlegur. Hann fær að hlaupa um völlinn og þessi skrefalengd hjá honum; hann stingur þessa gæja bara af.“

Liverpool keypti Isak fyrir metverð í haust en sænski framherjinn hefur ekki fundið fjölina sína með Englandsmeisturunum. 

Klaufalegt hjá Slot

Bjarni Guðjónsson myndi frekar veðja á Ekitike en Isak eins og staðan er núna en gagnrýndi Arne Slot, knattspyrnustjóra Liverpool, fyrir hvernig hann notaði Isak fyrst eftir að hann kom frá Newcastle.

„Mér fannst hann fara klaufalega að því þegar Isak kemur. Þá er verið að tala um að leikmaður sem var keyptur á 125 milljónir punda sé ekki í leikformi, hann þurfi að æfa sig og koma sér í form. Þarna áttu bara að henda honum beint í liðið og leyfa honum að spila sig inn í það,“ sagði Bjarni.

„Úr því sem komið er upp hjá Liverpool núna, staðan eins og hún er núna, með Ekitike eins og hann er, áttu þá að fórna honum til að vonast til að hinn komist í gang? Það er erfitt. Ég er ekkert endilega viss um að Isak sé endilega, og sérstaklega ekki með sjálfstraustið eins og það er núna, mikið framar honum. Ég sé ekkert annað en að dýrasti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar verði áfram á bekknum.“

Ekitike er markahæsti leikmaður Liverpool á tímabilinu með tíu mörk í öllum keppnum. Isak hefur aftur á móti aðeins skorað tvö.

Liverpool, sem er ósigrað í fjórum deildarleikjum í röð, er í 6. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 26 stig eftir sextán leiki.

Innslagið úr Messunni má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×