Enski boltinn

Sjáðu klaufa­legt sjálfs­mark Woltemade í grannaslagnum og öll hin úr enska

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sjálfsmark Nicks Woltemade tryggði Sunderland sigur á Newcastle United.
Sjálfsmark Nicks Woltemade tryggði Sunderland sigur á Newcastle United. getty/Robbie Jay Barratt

Fimm leikir fóru fram í ensku úrvalsdeildinni í gær. Gott gengi Aston Villa og Manchester City hélt áfram, Tottenham missteig sig í Nottingham og Sunderland er með montréttinn í norðrinu eftir sigur á erkifjendunum í Newcastle United.

Aðeins eitt mark var skorað í grannaslag Sunderland og Newcastle á Ljósvangi. Í upphafi seinni hálfleiks stangaði Nick Woltemade, framherji gestanna, boltann í eigið net og það mark skildi liðin að.

Villa kom tvisvar til baka gegn West Ham United á Lundúnaleikvanginum, 2-3, og vann sinn níunda sigur í öllum keppnum í röð. Morgan Rogers skoraði tvívegis fyrir Villa sem er í 3. sæti deildarinnar. 

Mateus Fernandes kom West Ham yfir eftir aðeins 29 sekúndur en Villa jafnaði á 9. mínútu með sjálfsmarki Konstantinos Mavropanos. Jarrod Bowen kom Hömrunum aftur yfir á 24. mínútu en Rogers jafnaði í upphafi seinni hálfleiks og skoraði svo sigurmarkið þegar ellefu mínútur voru til leiksloka.

Erling Haaland skoraði tvö mörk þegar Manchester City lagði Crystal Palace að velli, 0-3, á Selhurst Park. Phil Foden var einnig á skotskónum í fjórða deildarsigri City í röð. Strákarnir hans Peps Guardiola eru í 2. sæti deildarinnar, tveimur stigum á eftir toppliði Arsenal.

Nottingham Forest skellti Tottenham á City Ground, 3-0. Callum Hudson-Odoi skoraði tvö fyrstu mörk heimamanna og lagði það þriðja upp fyrir Ibrahim Sangaré sem skoraði með frábæru skoti í stöng og inn.

Þá gerðu Brentford og Leeds United 1-1 jafntefli. Jordan Henderson kom Brentford yfir á 70. mínútu en Dominic Calvert-Lewin jafnaði fyrir Leeds þegar átta mínútur lifðu leiks. Hann hefur nú skorað í fjórum deildarleikjum í röð.

Öll mörkin úr leikjum gærdagsins í ensku úrvalsdeildinni má sjá hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir

Sangaré og Hudson-Odoi hrelltu Tottenham

Nottingham Forest gerði sér lítið fyrir og lagði Tottenham að velli með 3-0 sigri í 16. umferð ensku úrvalsdeildarinnar. Callum Hudson-Odoi og Ibrahima Sangaré voru allt í öllu.

Sunderland vann nágrannaslaginn fyrir norðan

Nágrannaliðin Sunderland og Newcastle mættust í ensku úrvalsdeildinni í fyrsta sinn í rúman áratug. Svörtu kettirnir báru 1-0 sigur úr býtum í tíðindalitlum leik.

Haaland með tvennu í öruggum útisigri City

Manchester City sótti öruggan 3-0 sigur á útivelli gegn Crystal Palace í 16. umferð ensku úrvalsdeildarinnar. Erling Haaland skoraði tvö mörk og Phil Foden komst einnig á blað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×