Enski boltinn

Vísa á bug full­yrðingum Bruno sem hafa valdið fjaðra­foki

Aron Guðmundsson skrifar
Viðtal sem Bruno Fernandes veitti Canal 11 hefur vakið mikla athygli
Viðtal sem Bruno Fernandes veitti Canal 11 hefur vakið mikla athygli Vísir/Getty

Fulltrúar enska úrvalsdeildarfélagsins Manchester United, vísa á bug fullyrðingum fyrirliðans Bruno Fernandes sem sagði það vilja þeirra sem stjórna hjá félaginu að losa sig við hann síðasta sumar. 

Í viðtali við Canal 11 sem Bruno fór í fyrir nokkrum vikum síðan, en er fyrst núna að líta dagsins ljós, lýsti hann því hvernig honum sárnaði það að vera ekki metinn innan félagsins er upp­lifun hans var sú að reyna ætti að losa hann frá félaginu.

Síðastliðið sumar var mikið rætt og ritað um það hvort þessi 31 árs gamli fyrir­liði Manchester United gæti verið á leiðinni til Sádi-Arabíu en sjálfur hafnaði hann þreifingum Al-Hilal þar í landi.

Í um­ræddu viðtali við Canal 11 segist Bruno hafa viljað vera áfram hjá Manchester Unti­ed því að hann elski félagið af öllu sínu hjarta. Hins vegar hafi það sært hann að upp­lifa að sú ást væri ekki gagn­kvæm. Félagið virti hann ekki eins mikið.

„Ég hefði geta farið frá félaginu síðasta sumar og hefði geta þénað miklu meiri peninga. Sjónar­horn félagsins var á þá leið að ef ég færi þá yrði það ekkert svo slæmt fyrir félagið. Það særði mig,“ sagði Bruno við Canal 11 og bætti við að félagið hefði viljað losa hann.

„Það er ljóst í huga mínum. Ég sagði stjórn­endum félagsins það en ég held þá hafi skort hug­rekki til þess að taka þessa ákvörðun (að láta hann fara) vegna þess að knatt­spyrnu­stjórinn vildi ekki missa mig. Ef ég hefði tjáð þeim að ég vildi fara, þá hefðu þeir látið mig fara.“

Full­yrðingum Bruno vísa tals­menn Manchester United á bug í sam­tali við The At­hletic. Í svari félagsins við fyrir­spurn miðilsins er því haldið fram að stjórn­endur Manchester United hafi komið því áleiðis til Bruno á skýran hátt að hann gegndi lykil­hlut­verki í áætlunum félagsins fyrir þá komandi tíma­bil.

En um­mæli Portúgalans verða þess nú valdandi að mikil um­ræða fer á flug varðandi framtíð hans hjá félaginu sem og sam­band hans við stjórn­endur þess.

Bruno fram­lengdi samning sinn við Manchester United árið 2024 til ársins 2027 og þá getur félagið fram­lengt þann samning um eitt ár í gegnum sér­stakt ákvæði.

Portúgalinn gekk í raðir Manchester United árið 2020 frá Sporting Lissabon og hefur spilað yfir þrjú hundruð leiki fyrir félagið, skorað 103 mörk og lagt upp 93. Hjá Manchester United hefur hann unnið enska bikarinn sem og enska deildar­bikarinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×