Golf

Ís­lensku stelpurnar misstu einn keppnis­dag vegna eldingar­hættu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ragnhildur Kristinsdóttir tryggði sér sæti beint inn í lokaúrtökumótið með frábærum árangri á LET Access-mótaröðinni í sumar.
Ragnhildur Kristinsdóttir tryggði sér sæti beint inn í lokaúrtökumótið með frábærum árangri á LET Access-mótaröðinni í sumar. Getty/Charles McQuillan/Richard Heathcote

Íslensku kylfingarnir Guðrún Brá Björgvinsdóttir, Ragnhildur Kristinsdóttir, Andrea Bergsdóttir og Hulda Clara Gestsdóttir áttu að hefja leik í lokaúrtökumóti Ladies European Tour í gær en ekkert varð af því.

Fyrstu umferðinni var aflýst vegna mikillar úrkomu og eldingahættu á Al Maaden Golf og Royal Golf Marrakech golfvöllunum.

Þetta þýðir að lokamótið verður nú aðeins 72 holur en ekki 90 holur eins og það átti að vera. Alls eru 155 kylfingar frá 40 þjóðum skráðir til leiks í lokamótinu.

Allir íslensku kylfingarnir áttu að byrja á Al Maaden-vellinum í gær.

Ragnhildur og Andrea tryggðu sér sæti beint inn í lokaúrtökumótið með frábærum árangri á LET Access-mótaröðinni í sumar, þar sem þær enduðu í áttunda og tólfta sæti stigalistans.

Efstu sjö kylfingar LET Access komust beint inn á mótaröðina, en þeir sem enduðu í sætum 8-32 á stigalistanum fengu sjálfkrafa þátttökurétt í lokaúrtökumótinu.

Guðrún Brá og Hulda Clara spiluðu sig síðan inn í lokamótið í úrtökumóti sem fór fram í Marrakesh í síðustu viku. Þar var keppt á fjórum mismunandi völlum og níutíu kylfingar tryggðu sig inn á lokamótið.

Til mikils er að vinna í lokaúrtökumótinu, en LET-mótaröðin er sú sterkasta í Evrópu og sú næststerkasta í heimi.

Efstu 20 kylfingar mótsins fá fullan þátttökurétt á LET fyrir tímabilið 2026.

Kylfingarnir í sætum 21-50 fá skilyrtan þátttökurétt á LET fyrir tímabilið 2026.

Allir aðrir kylfingar sem náðu inn í lokamótið fá takmarkaðan þátttökurétt á LET fyrir tímabilið 2026.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×