Íslenski boltinn

Segir fjórðung í bók Óla ó­sannan

Valur Páll Eiríksson skrifar
Martin segir 75 prósent þess sem Óli segi um hann í nýútgefinni bók vera satt. Annað ekki.
Martin segir 75 prósent þess sem Óli segi um hann í nýútgefinni bók vera satt. Annað ekki. Samsett/Vísir

Enski framherjinn Gary Martin, sem lék undir stjórn Ólafs Jóhannessonar um skamma hríð hjá Val hér á landi, skaut létt á fyrrum stjóra sinn á samfélagsmiðlum í gær. Hann hafði þá fengið nýútgefna bók um Óla í hendurnar.

Bókin er skrifuð af Ingva Þór Sæmundssyni og kom nýverið út. Þar er áratugalangur þjálfaraferill Óla Jó rakinn.

Martin lék hér á landi um árabil, með ÍA, KR, Víkingi og Val, meðal annarra. Hann entist ekki lengi undir stjórn Óla á Hlíðarenda, spilaði aðeins þrjá deildarleiki, sem hann skoraði þó í tvö mörk.

Gary Martin birti þessa færslu með mynd af bók Óla Jó í gær.Skjáskot/Instagram/g10bov

Mikið var fjallað um ósætti milli þeirra Óla og Martin á þeim tíma en Englendingurinn skipti í kjölfarið til ÍBV þar sem hann raðaði inn mörkum.

Óli segir í bókinni að þeir Gary hafi ekki verið á sömu bylgjulengd og rekur söguna milli þeirra tveggja. Gary segir ekki allt í þeim kafla vera sannleikanum samkvæmt.

Í færslu í sögu sinni á Instagram segir Gary Martin: „Takk fyrir að minnast á mig í bókinni Óli. 75 prósent sannleikur en 25 prósent ....“

Martin lék sína síðustu leiki hér á landi sumarið 2024 með Víkingi Ólafsvík og var til viðtals hjá Sýn þar sem hann gerði upp um áratug sem hann eyddi hér, með hléum, frá 2010 til 2024.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×