Viðskipti innlent

Eyða ó­vissu á lána­markaði strax á mánu­dag

Árni Sæberg skrifar
Frá dómsuppkvaðningu í fyrsta Vaxtamálinu. Á miðri mynd er Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna.
Frá dómsuppkvaðningu í fyrsta Vaxtamálinu. Á miðri mynd er Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna.

Hæstiréttur mun kveða upp seinni tvo dómana í Vaxtamálinu svokallaða á mánudag. Rétturinn hefur frest til annars vegar gamlársdags og hins vegar 5. janúar til þess að kveða upp dóma í málunum tveimur.

Á vef Hæstaréttar segir að dómar verði kveðnir upp í tveimur málum neytenda á hendur Landsbankanum klukkan 14 mánudaginn 22. desember.

Gríðarleg óvissa hefur verið uppi á lánamarkaði frá því að Hæstiréttur dæmdi tiltekna skilmála Íslandsbanka í samningi um óverðtryggt lán á breytilegum vöxtum ólögmæta þann 14. október síðastliðinn. Síðan þá hafa lánveitendur breytt lánaframboði sínu en enn er uppi óvissa um önnur lánaform.

Hæstiréttur sýknaði Arion banka aftur á móti af öllum kröfum neytenda í máli sem varðaði verðtryggt lán á breytilegum vöxtum, þann 10. desember.

Dómarar sennilega í fríi á gamlársdag

Aðalmeðferð í þriðja málinu fór fram þann 3. desember. Það varðar óverðtryggt viðbótarlán með breytilegum vöxtum og í því er deilt um sambærilega skilmála og í máli neytenda á hendur Íslandsbanka.

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi bankanum í vil í mars síðastliðnum, einkum með vísan til þess að vextirnir sem lántakendur greiddu voru aldrei hærri en upphafsvextir miðað við lánasamninginn. Þannig nýtti bankinn sér aldrei umdeilda skilmála til þess að hækka vextina.Hæstiréttur veitti lántakendunum áfrýjunarleyfi til réttarins í byrjun júní, án þess að málið væri tekið fyrir í Landsrétti.

Samkvæmt lögum um meðferð einkamála skal kveða upp dóm eigi síðar en fjórum vikum eftir málflutning, ellegar skuli flytja mál á ný. Einkar óvanalegt er að Hæstiréttur fari umfram fjórar vikurnar og sömu sögu er að segja af því að rétturinn kveði upp dóma innan fjögurra vikna. Því hefði mátt reikna með því að dómur í því yrði kveðinn upp þann, 31. desember, á gamlársdag. 

Nú er ljóst að dómarar Hæstaréttar ætla ekki að kveða upp dóm á síðasta degi ársins heldur kveða þeir upp dóm aðeins tæpum þremur vikum eftir aðalmeðferð.

Taka helmingi styttri tíma en þeir hafa

Loks var aðalmeðferð í máli tveggja lántakenda á hendur Landsbankanum á dagskrá þann 8. desember. Í því er deilt um skilmála tveggja verðtryggða skuldabréfa sem gefin voru út árið 2006 til forvera Landsbankans, til þess að gera upp skuld vegna yfirdráttar.

Landsbankinn var í héraði dæmdur til að endurgreiða lántakendum rúmlega 100 þúsund krónur hvorum um sig en Landsréttur sýknaði bankann. Rétturinn taldi það ekki hafa verið ósanngjarnt af bankanum að bera fyrir sig skilmála um vaxtabreytingar, þar sem vextir hefði iðullega verið lægri en upphafsvextir.

Samkvæmt sömu forsendum og reifaðar eru hér að framar hefði mátt ganga út frá því að dómur í málinu gengi þann 5. janúar næstkomandi. Þess í stað verður hann kveðinn upp á mánudag, aðeins tveimur vikum eftir aðalmeðferð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×