Innlent

„Við látum alltaf taka okkur í bakaríið á endanum“

Tómas Arnar Þorláksson skrifar
Sjór gekk yfir þjóðveginn austan við Vík í Mýrdal í gær.
Sjór gekk yfir þjóðveginn austan við Vík í Mýrdal í gær. Einar Freyr Elínarson

Veðurfræðingur Vegagerðarinnar segir brýnt að bregðast við miklum sjógangi við Vík í Mýrdal og að ekki megi sofa á verðinum. Sjór gekk yfir þjóðveginn í gær sem geti haft alvarlegar afleiðingar í för með sér. 

Mikill sjór gekk á land við Vík í Mýrdal í gær með þeim afleiðingum að flóð var austan við Vík og sunnan við þjóðveginn og mikill sjór safnaðist saman við bæinn. Austan við Vík gekk sjór yfir þjóðveginn.

Þó nokkur sjór safnaðist saman á landi við Vík í Mýrdal.Einar Freyr Elínarson

Mbl.is greindi fyrst frá. 

Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur Vegagerðarinnar, segir sjóganginn í gær vera áhyggjuefni og koma verulega á óvart.

„Það virðist vera sem að breytingar hafi orðið á sandinum framan við Vík og líka við Reynisfjöru. Þannig að sjórinn gekk lengra inn á land en venja er til, í ekki verra veðri en var þó. Það var einhver öldugangur og einhver vindur en alls ekki verulega slæmt veður. Ég held að þetta hafi komið fólki í Vík á óvart. Ég var hissa að sjá myndir af þessu í gær.“

Hætta geti fylgt svo miklum sjógangi. Hann segir þetta skýrt dæmi um að það sé mikilvægt að vera vakandi fyrir ágangi sjávar við strendur landsins.

„Það gildir um þetta eins og aðrar náttúruvár. Við megum ekki sofna á verðinum. Við þurfum að vera stöðugt meðvituð um þessa hættu. Þessi hætta er ekki ný til komin heldur hefur verið lengi en það er eins og við látum alltaf taka okkur í bakaríið á endanum. Eins og við séum hálfsofandi allavega margir hverjir. En auðvitað er Vegagerðin og almannavarnir að fylgjast með þessu, þó það nú væri.“

Einhver öldugangur var í gær en búast má við enn meiri ákafa á næstu dögum.Einar Freyr Elínarson

Hann bendir á að í Kötlugosinu 1918 hafi jarðefni bæst við meðfram ströndinni sem hafi veitt dálitla vörn. Sú vörn sé þó á undanhaldi.

„Það er stöðugt verið að naga af viðbótinni frá Kötlugosinu. Það verður að segjast eins og er að þetta er eitt af því fáa jákvæða sem kæmi með nýju Kötlugosi. Þá kæmi nýtt framburðarefni og meira land.“

Hann segir verra veður í vændum fyrir jólin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×