Innlent

Grenjandi rigning og hífandi rok á að­fanga­dag

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Allt að tólf stiga hita er spáð á aðfangadag jóla.
Allt að tólf stiga hita er spáð á aðfangadag jóla. Vísir/Vilhelm

Útlit er fyrir stífa sunnanátt með talsverðri rigningu á aðfangadag jóla í Reykjavík. Veðurspáin gerir ráð fyrir allt að átján metrum á sekúndu í borginni.

Fram kemur í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofunnar frá í morgun að milt verði í veðri næstu daga og blautt suðvestantil en þurrt að kalla fyrir norðan. Kaldi og strekkingur einkenni jólatíðina og hvassast við suðvesturströndina.

Eitthvað kólnar á Þorláksmessu en þó ekkert frost. Spáin gerir ráð fyrir allt að tólf stiga hita á aðfangadag og sömuleiðis roki og rigningu. Áfram verði vætusamt sunnanlands á jóladag en úrkomuminna fyrir norðan og eitthvað kólni þegar á líður jólin.

Veðurhorfur á landinu næstu daga:

Á mánudag:

Suðaustan 8-15 m/s, en 13-18 suðvestantil fram eftir degi. Skúrir, og síðar rigning á Austfjörðum, en þurrt að mestu á Norðurlandi. Hiti 2 til 9 stig.

Á þriðjudag (Þorláksmessa):

Suðvestlæg eða breytileg átt 5-13 og slydda eða rigning með köflum, en úrkomuminna eftir hádegi. Hiti um eða yfir frostmarki. Vaxandi sunnanátt um kvöldið og hlýnar með rigningu eða súld sunnan- og vestanlands.

Á miðvikudag (aðfangadagur jóla):

Sunnan og suðvestan hvassviðri eða stormur og rigning, en úrkomulítið um landið norðaustanvert. Hlýtt í veðri.

Á fimmtudag (jóladagur):

Minnkandi suðvestanátt og rigning með köflum, en kólnar með slyddu vestanlands.

Á föstudag (annar í jólum):

Vestan- og norðvestanátt og dálítil él, en snjókoma eða slydda um landið austanvert fram eftir degi. Hiti um eða undir frostmarki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×