Skoðun

Þegar jóla­sveinninn kemur ekki á hverri nóttu

Guðlaugur Kristmundsson skrifar

Við njótum nú síðustu klukkustunda aðventunnar og jólin eru yfirvofandi. Þetta er tími hefða, samveru og þess að gefa hvert öðru gaum – stundum með gjöfum, en oftar en ekki með nærveru. Fyrir mörg okkar er þetta þó líka tími langra verkefnalista og yfirþyrmandi krafna sem við setjum á okkur sjálf, eða samfélagið gerir.

Sem formaður Félags fósturforeldra síðustu tíu ár veit ég að fyrir marga félagsmenn er þetta tími þar sem ýmislegt afhjúpast í fortíð þeirra barna sem okkur hefur verið falið að fóstra.

Jólin gera nefnilega ráð fyrir því að við þekkjum hefðirnar á einhvern hátt, þess vegna getur það verið erfitt að koma inn á nýtt heimili þar sem útbreiddar venjur eru í föstum skorðum. Þetta getur skapað óöryggi og togstreigu hjá börnunum, umhverfi sem vanalega skapar öryggi skapar óöryggi hjá þeim sem þekkja það ekki og bætast í fjölskylduna. Þetta geta verið hin einföldustu verkefni eða hefðir, sem er sársaukafullt fyrir okkur eldri að vita að börn á grunnskólaaldri þekki ekki. Hér eru mandarínur, jólasveinar, smákökur, jólapakkar, jólaboð og matartímar dæmi um hina eðlilegu hluti sem reynast svo ókunnir að erfitt er að afhjúpa vankunnáttu sína á nýju heimili.

Það er nefnilega sársaukafullt að viðurkenna að vita ekki hvað mandarínur séu eða hvernig þær eru opnaðar. Að trúa því að jólasveinarnir gefi raunverulega í skóinn á hverjum degi - að það sé ekki bara enn einn hversdagslegi hluturinn þar sem allir taka þátt í að ljúga hvert að öðru. Eða að skipast á jólapökkum þar sem allir viðstaddir fá gjafir og við þökkum fyrir okkur, ekki að gjafir séu skemmdar eða seldar af heimilismanni. Að sitja til borðs með mat sem fólk hefur hlakkað til en ekki kviðið fyrir hvort máltíðin verði eða í hvaða ástandi fólk verði þar.

Og jólin minna okkur á þetta og þau afhjúpa þetta allt – það er oft svo stórt en mikilvægt uppgjör við fortíðina en með uppgjörinu skapast tækifæri til þess að skapa eitthvað nýtt og vekja eftirvæntingu fyrir næstu jólum. Það er hlutverk okkar sem fósturforeldrar og við tökum það alvarlega.

Þegar ég lít til baka á starf félagsins á árinu er þakklæti það fyrsta sem kemur upp í hugann. Við finnum í auknum mæli fyrir velvilja almennings og fyrirtækja. Þegar við leitum eftir stuðningi er oftar en ekki vel tekið á móti okkur – og fyrir það erum við innilega þakklát. Þetta er fyrsta árið þar sem félagið hafði starfsmann á launum allt árið. Það þýðir að framtíðarsýn okkar raungerist hraðar en við áður höfum upplifað, að samfélag fósturforeldra styrkist og við styrkjum hvert annað með ráðum og dáðum.

Á mínu heimili á aðventunni óskaði sonur minn þess jólasveininn myndi gera það mögulegt að hann fengi að hitta kynmóður sína. Hann óskaði þess að þau fengju tíma saman og hún næði heilsu til þess að geta hitt hann. Hann staldraði aðeins við bón sína og bætti svo við að ef það væri ekki mögulegt, þá óskaði hann þess að hún væri allavega örugg og að hún fengi að halda jól. Enn staldraði hann við, enda hafði hann líklega beðið jólasveininn um ansi mikið því eðlilega hefur hann í mörg horn að líta. Að ef honum tækist þetta nú, þá þyrfti hann ekki að ómaka sig við frekari skógjafir, þetta árið, fyrir sig.

Þarna kjarnaði hann jólin.

Jólin snúast ekki um hluti. Þau snúast um fólk. Um að veita hvert öðru gaum og skapa minningar með samveru. Þar býr hinn sanni jólaandi.

Ég óska fósturforeldrum, fósturbörnum, fósturfjölskyldum og landsmönnum öllum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári. Með miklum þökkum fyrir alla velvildina og styrkina sem Félagi fósturforeldra hlotnaðist á þessu ári.

Höfundur er formaður Félags fósturforeldra.




Skoðun

Sjá meira


×