Skoðun

Fleiri á­sælast Græn­land en Trump

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar

Fyrr á árinu samþykkti þing Evrópusambandsins skýrslu um málefni norðurslóða með miklum meirihuta atkvæða þar sem stofnanir þess voru hvattar til að beita sér fyrir því að Grænland færi undir stjórn sambandsins auk Íslands og Noregs. Þá var enn fremur lögð áherzla á mikilvægi náttúruauðlinda landanna fyrir Evrópusambandið.

Með öðrum orðum er langur vegur frá því að stjórnvöld í Bandaríkjunum séu ein um það að sækjast eftir því að ná yfirráðum yfir Grænlandi og ásælast auðlindir landsins. Hið sama á við um Evrópusambandið auk yfirráða yfir Íslandi og Noregi og auðlindum þeirra. Í meginatriðum er hugsunin sú sama. Landfræðileg útþenslustefna.

„Heimsálfan okkar hefur orðið vitni að ítrekuðum tilraunum til þess að sameina hana; Sesar, Karlamagnús og Napóleon ásamt öðrum. Markmiðið hefur verið að sameina álfuna með vopnavaldi, með sverðinu. Við viljum hins vegar sameina hana með pennanum. Mun penninn ná árangri þar sem sverðið hefur endanlega beðið ósigur?“

Með þessum hætti komst Valéry Giscard d’Estaing, fyrrverandi forseti Frakklands, að orði í ræðu sem hann flutti árið 2003 þegar hann tók við verðlaunum fyrir framlag sitt til samrunaþróunarinnar innan Evrópusambandsins. Markmiðið væri með öðrum orðum í grunninn það sama og hjá stórveldum fyrri alda en aðferðin önnur.

Frá upphafi hefur markmiðið með samrunanum innan Evrópusambandsins og forvera þess verið að til yrði sambandsríki. Þetta kemur til að mynda fram í Schuman-yfirlýsingunni frá árinu 1950 sem markaði upphaf sambandsins. Unnið hefur verið jafnt og þétt að því markmiði síðan og hefur Evrópusambandið öðlast sífellt fleiri einkenni ríkis.

Tal Donalds Trump Bandaríkjaforseta um málefni Grænlands hefur vitanlega á engan hátt verið ásættanlegt en hið sama á að sjálfsögðu við um ásælni Evrópusambandsins í garð landsins. Markmið sambandsins er í grunninn það sama. Að tryggja sér yfirráð yfir Grænlandi og auðlindum þess líkt og í tilfelli Íslands. Með pennanum.

Höfundur er sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur (MA í alþjóðasamskiptum með áherzlu á Evrópufræði og öryggis- og varnarmál).




Skoðun

Sjá meira


×