Sport

„Þegar þú spilar við Gary Ander­son er alltaf pláss fyrir flug­elda­sýningu“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Eftir langa bið mætast Michael van Gerwen og Gary Anderson loks aftur á HM á morgun.
Eftir langa bið mætast Michael van Gerwen og Gary Anderson loks aftur á HM á morgun. getty/Steven Paston

Heimsmeistararnir fyrrverandi, Michael van Gerwen og Gary Anderson, leiða saman hesta sína á HM í pílukasti á morgun.

Van Gerwen hefur þrisvar sinnum orðið heimsmeistari og Anderson tvisvar. Leikur þeirra á morgun verður sá fyrsti á HM síðan þeir mættust á mótinu 2019. Van Gerwen hafði þá betur í undanúrslitum, 6-1, og vann svo mótið eftir 7-3 sigur á Michael Smith í úrslitum. 

„Ég hlakka mikið til að mæta honum því þegar þú spilar við Gary er alltaf pláss fyrir flugeldasýningu,“ sagði Van Gerwen.

„Við spilum alltaf vel gegn hvor öðrum, allavega oftast, og tilhlökkunin er mikil.“

Van Gerwen og Anderson hafa margoft mæst en sá fyrrnefndi hefur vinninginn í innbyrðis viðureignum gegn þeim síðarnefnda. Van Gerwen hefur unnið fimmtíu leiki en Anderson 22.

„Ég spilaði fyrst við Gary Anderson fyrir rúmlega tuttugu árum. Við vitum nákvæmlega hvað við þurfum til að vinna. Við höfum átt svo marga frábæra leiki og vonandi er annar slíkur framundan. Ef ég nýt ekki svona leikja lengur hætti ég,“ sagði Van Gerwen. 

Sá hollenski hefur unnið Mitsuhiko Tatsunami, William O'Connor og Arno Merk á HM á meðan Anderson hefur sigrað Adam Hunt, Connor Scutt og Jermaine Wattimena. Viðureign Andersons og Wattinemas í gær var frábær skemmtun en sá skoski hafði betur í oddasetti, 4-3.

Sýnt verður beint frá öllum keppnisdögum heimsmeistaramótsins í pílukasti á Sýn Sport Viaplay.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×