Enski boltinn

Arsenal græddi á mis­tökum dómarans í 1-0 sigrinum á Everton

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Atvikið umrædda með Arsenal-manninum William Saliba og Everton-maninum Thierno Barry.
Atvikið umrædda með Arsenal-manninum William Saliba og Everton-maninum Thierno Barry. Getty/Chris Brunskill

Topplið ensku úrvalsdeildarinnar slapp heldur betur með skrekkinn á dögunum í naumum sigri og dómaramatsnefndin fræga hefur nú komist að því að Arsenal græddi á mistökum dómara og myndbandsdómara.

Everton hefði nefnilega átt að fá vítaspyrnu í 1-0 tapi sínu gegn Arsenal þann 20. desember síðastliðinn, að sögn umræddrar nefndar ensku úrvalsdeildarinnar sem tekur fyrir lykilatvik í leikjum.

Arsenal var 1-0 yfir á 57. mínútu þegar William Saliba og framherji Everton, Thierno Barry, lentu saman innan vítateigs. Barry náði boltanum fyrst en franski varnarmaður Arsenal sparkaði í fót hans.

Nefndin kaus með þremur atkvæðum gegn tveimur að ákvörðun dómarans, Sam Barrott, um að dæma ekki vítaspyrnu hefði verið röng.

Hún kaus einnig með þremur atkvæðum gegn tveimur að myndbandsdómarinn, Michael Salisbury, hefði átt að senda dómarann af skjánum til að breyta ákvörðun sinni.

Þrír nefndarmenn tóku fram að „Saliba sparkar af gáleysi í Barry án þess að snerta boltann“ og töldu þeir þetta vera augljós mistök.

Tveir nefndarmenn studdu ákvörðunina um að dæma ekki víti þar sem „snertingin var ekki nægilega mikil og viðbrögðin komu seint“.

David Moyes stjóri Everton skildi ekki hvers vegna svipuð atvik hefðu leitt til vítaspyrna.

Hann vísaði sérstaklega til vítaspyrnu sem dæmd var á Fulham gegn Nottingham Forest tveimur dögum síðar. Nefndin studdi þá ákvörðun einróma.

„Ég var hálfpartinn að kafna í gærkvöldi þegar ég sá ákvörðunina sem var tekin fyrir Fulham en ekki fyrir okkur,“ sagði Moyes. „Það er eins og ákveðin félög fái þessar ákvarðanir en önnur ekki.“

Hver nefnd um lykilatvik í leikjum er skipuð fimm meðlimum. Þrír eru fyrrverandi leikmenn eða þjálfarar, auk þess sem einn fulltrúi er frá ensku úrvalsdeildinni og einn frá samtökum atvinnudómara.

Það má sjá þetta atvik í myndbandinu hér fyrir ofan þar sem eru sýndar svipmyndir úr leiknum. Atvikið kemur rúmlega mínútu í myndbandinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×