Fótbolti

Mourinho grætti Cristiano Ronaldo í klefanum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo á leið inn í búningsklefa Real Madrid eftir súr úrslit.
Cristiano Ronaldo á leið inn í búningsklefa Real Madrid eftir súr úrslit. Getty/ David Ramos

Króatíska goðsögnin Luka Modrić rifjaði upp tíma sinn hjá Real Madrid í nýju viðtali og talaði sérstaklega um hvað Jose Mourinho hefði verið harður stjóri á tíma þeirra hjá Real Madrid.

Mourinho var svo harður stjóri að hann fékk stjörnuleikmanninn Cristiano Ronaldo til að gráta í búningsklefanum.

„Ég sá hann láta Cristiano Ronaldo gráta í búningsklefanum, mann sem gefur allt sitt á vellinum, af því að í eitt skipti elti hann ekki bakvörð andstæðinganna,“ sagði Modrić við ítalska dagblaðið Corriere della Sera.

Frásögn af þessu táraflóði

Ronaldo, sem er nú fjörutíu ára og leikur með Al Nassr í Sádi-Arabíu, var undir stjórn Mourinho hjá Madrid í þrjú ár á milli 2010 og 2013. Frásögn Modrić af þessu táraflóði endurspeglar frásagnir af stormasömu sambandi þeirra – sem er lýst ítarlega í ævisögu Ronaldo frá 2015 eftir spænska blaðamanninn Guillem Balagué.

Modrić lék með Ronaldo hjá Real Madrid í sex tímabil undir stjórn Mourinho, Carlo Ancelotti, Zinedine Zidane og Rafa Benitez.

Ronaldo, sem lék í níu tímabil með Los Blancos, hefur fimm sinnum unnið Gullknöttinn (Ballon d'Or). Með Real Madrid vann hann fjórum sinnum Meistaradeildina, þrisvar sinnum HM félagsliða og Ofurbikar UEFA, tvo LaLiga-titla, tvo spænska bikartitla (Copa del Rey) og tvo spænska ofurbikartitla.

Mourinho var stjórinn sem fékk Modrić frá Tottenham og trú hans á miðjumanninum borgaði sig. Þeir unnu saman spænska ofurbikarinn og áhrif Modrić á framtíð Madrid voru ótvíræð.

Án Mourinho hefði ég aldrei komið

Þrátt fyrir stundum stormasamar stundir lýsti Modrić Mourinho sem „sérstökum“.

„Bæði sem þjálfari og sem persóna. Það var hann sem vildi fá mig til Real Madrid,“ sagði Modrić. „Án Mourinho hefði ég aldrei komið. Ég sé eftir því að hafa aðeins haft hann í eitt tímabil.“

Mourinho fékk sitt nú alræmda gælunafn eftir fyrsta blaðamannafund sinn með Chelsea árið 2004, þar sem nýkrýndur Meistaradeildarmeistari sagði: „Vinsamlegast ekki kalla mig hrokafullan, en ég er Evrópumeistari svo ég held að ég sé sá sérstaki (e. the special one).“

Modrić, sem sjálfur er nú 40 ára, skrifaði undir eins árs samning við AC Milan í maí eftir tólf tímabil hjá Madrid. Hann bætti við í viðtalinu að þjálfari Milan, Massimiliano Allegri, hefði svipaðan þjálfunarstíl og Mourinho.

Mjög beinskeyttur við leikmenn

„Mourinho er mjög beinskeyttur við leikmenn en hann er heiðarlegur,“ sagði Modrić. „Hann kom eins fram við Sergio Ramos og nýliðann: ef hann þurfti að segja þér eitthvað, þá sagði hann þér það. Max er líka þannig: hann segir þér beint í fésið hvað er rétt og hvað er rangt. Heiðarleiki er grundvallaratriði,“ sagði Modrić.

AC Milan endurréð Allegri sem þjálfara fyrr á þessu ári. Allegri vann ítölsku deildina í fyrsta sinn með Milan árið 2011 og leiddi síðan Juventus til fimm titla í röð frá 2015 til 2019.

Mourinho, 62 ára, tók við portúgalska stórliðinu Benfica með bráðabirgðasamningi til tveggja ára í september síðastliðnum eftir að hafa verið rekinn frá Fenerbahce.

Á ferli sínum hefur hann unnið 26 stóra titla með FC Porto, Chelsea, Inter Milan, Real Madrid, Manchester United og AS Roma. Hann var einnig í sautján mánuði við stjórnvölinn hjá Tottenham. Hann vann Meistaradeildina með Porto árið 2004 og með Inter Milan árið 2010.

Modrić hætti hjá Real Madrid aðeins þremur leikjum frá því að ná sex hundruðasta leiknum, en hann er áttundi leikjahæsti leikmaðurinn í sögu félagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×