Erlent

Fækkar ráð­lögðum bóluefnum

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Robert F Kennedy yngri er heilbrigðisráðherra.
Robert F Kennedy yngri er heilbrigðisráðherra. EPA

Sóttvarnarstofnun Bandaríkjanna, CDC, hefur fækkað ráðlögðum bólusetningum barna úr sautján í tíu. 

Á uppfærðum lista yfir bólusetningar sem eru ráðlagðar fyrir börn má finna bóluefni gegn mænusótt og mislingum en settur er fyrirvari á bóluefni gegn lifrarbólgu A og B og Covid-19. Slík bóluefni má gefa eftir samráð með heilbrigðisstarfsfólki samkvæmt NYT. Einnig verður einungis mælt með bólusetningu við RS-veirunni fyrir börn í áhættuhópi. 

Robert F. Kennedy yngri, heilbrigðisráðherra Bandaríkjanna, hefur opinberlega efast um virkni bóluefna og krafðist til að mynda að bóluefni gegn kórónuveirunni yrði tekið úr umferð á tímum heimsfaraldursins. Endurskoðun listans yfir ráðlögð bóluefni er hluti af umfangsmikilli stefnubreytingu ráðherrans. 

„Við erum að samræma bólusetningaráætlun barna í Bandaríkjunum við alþjóðlega samstöðu um leið og við aukum gagnsæi og upplýst samþykki,“ er haft eftir Kennedy.

Að sögn Kennedy er verið að samræma tilmæli Bandaríkjanna við tilmæli annarra þróaðra ríkja, á við Japan, Danmörku og Þýskaland. Hann vitnar í skýrslu sem segir að tilmæli Bandaríkjanna séu ansi ólík öðrum löndum, en í frétt NYT er bent á að tilmælin hafi áður verið mjög lík þeim í Kanada, Bretlandi og Ástralíu. Nýju tilmælin séu ansi lík þeim sem eru í gildi í Danmörku.

Áður fyrr sá ákveðin ráðgjafarnefnd um tilmæli CDC um bólusetningar.

„Skyndileg breyting á skipulagi bóluefna bandarískra barna er áhyggjuefni, ónauðsynleg og setur heilsu bandarískra barna í hættu,“ segir Helen Chu, læknir og fyrrverandi meðlimur í ráðgjafarnefnd alríkisstjórnarinnar um bóluefni.

Það er undir hverju ríki komið að ákveða hvaða bóluefni eru nauðsynleg fyrir börn en slíkar tilskipanir verða fyrir miklum áhrifum frá tilmælum CDC.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×