Viðskipti innlent

Róbert hættir sem for­stjóri Alvotech

Árni Sæberg skrifar
Róbert verður áfram stjórnarformaður félagsins og það í fullu starfi.
Róbert verður áfram stjórnarformaður félagsins og það í fullu starfi. Vísir/Vilhelm

Í lok fyrsta ársfjórðungs ársins mun Róbert Wessman láta af störfum sem forstjóri Alvotech. Hann mun þó starfa áfram sem stjórnarformaður félagsins í fullu starfi.

Þetta segir í tilkynningu Alvotech til Kauphallar. Þar segir að breytingar á yfirstjórn félagsins sem eru fram undan komi að lokinni vinnu stjórnar sem staðið hafi yfir um nokkurt skeið. Róbert hafi gegnt bæði starfi stjórnarformanns frá stofnun félagsins árið 2013 og starfi forstjóra síðan í ársbyrjun 2023. Í lok fyrsta árfjórðungs þessa árs muni Róbert vera starfandi stjórnarformaður í fullu starfi og Lisa Graver taka við sem forstjóri félagsins.

„Þegar ég tók að mér starf forstjóra í ársbyrjun 2023, var ætlunin að styrkja daglegan rekstur og undirbúa félagið vel undir nýtt tímabil í sögu þess. Það var ekki markmiðið að hafa hlutverk stjórnarformanns og forstjóra á einni hendi til langs tíma. Ég hef unnið í töluverðan tíma með stjórn félagsins að því að finna nýjan forstjóra. Við erum nú að hefja nýjan áfanga í þróun félagsins, með vaxandi úrvali lyfja á markaði og aukinni útbreiðslu. Afar mikilvægt er að stjórnendur félagsins búi á Íslandi þar sem helstu þættir framleiðslunnar fara fram. Lisa hefur verið traustur samstarfsfélagi minn í meira en 20 ár. Hún er með verðmæta leiðtogareynslu og djúpa þekkingu á þessum iðnaði. Lisa nýtur óskoraðs trausts stjórnar félagsins til að leiða áframhaldandi uppbyggingu Alvotech, sem hvílir á afar sterkum grunni,“ er haft eftir Róberti.

Spenntur fyrir tækifærunum fram undan

Sem starfandi stjórnarformaður og stærsti hluthafi félagsins muni hann áfram einbeita sér af alefli að því að tryggja velgengni félagsins. Hann ætli að beina kröftum sínum að stefnumótun, viðskiptaþróun, vali á næstu verkefnum í lyfjaþróun, samskiptum við alþjóðlega fjárfesta og góðum stjórnarháttum. 

„Við höfum byggt upp lyfjaþróun á heimsmælikvarða, frábæra framleiðsluaðstöðu og erum með 30 lyf í þróun, sem er eitt verðmætasta safn lyfja í þróun í okkar geira. Nú eru fimm fyrstu hliðstæðurnar komnar á markað. Ég er ótrúlega spenntur fyrir þeim miklu tækifærum sem fram undan eru hjá Alvotech.“

Mikill heiður

„Mér er það mikill heiður að fá tækifæri til þess að gegna stöðu forstjóra Alvotech, á þessum mikilvæga tíma í sögu félagsins. Alvotech hefur byggt upp fullkomna aðstöðu til lyfjaþróunar og -framleiðslu, félagið er með skýra stefnu, frábæra menningu og úrvals starfsfólk. Ég hef dvalið langdvölum á Íslandi undanfarna tvo áratugi og er full tilhlökkunar til þess að flytjast til landsins og vinna náið með leiðtogateyminu og öðru samstarfsfólki við að halda áfram að hrinda í framkvæmd metnaðarfullum áformum félagsins um aukinn vöxt á næstu árum,“ er haft eftir Lisu Graver, tilvonandi forstjóra Alvotech.

Í tilkynningu segir að Lisa sé með yfirgripsmikla leiðtoga- og rekstrarreynslu í lyfjageiranum og hafi starfað með Róberti í meira en tuttugu ár. Hún hafi verið forstjóri Alvogen í Bandaríkjunum þar til félagið var selt til Lotus Pharmaceuticals í desember síðastliðnum. Hún hafi setið í stjórn Alvotech frá því að félagið var skráð á markað í Bandaríkjunum í júní 2022.

Róbert og Lisa muni vinna með leiðtogateymi félagsins á næstu mánuðum að því að tryggja að breytingarnar gangi vel. Lisa muni ganga úr stjórn Alvotech þegar hún tekur formlega við forstjórastarfinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×