Enski boltinn

Enn í út­legð en hvert getur hann farið?

Valur Páll Eiríksson skrifar
Raheem Sterling hefur ekki leikið fótbolta í Chelsea búning síðan árið 2024. Hann var á láni hjá Arsenal í fyrra en Skytturnar ákváðu að fá hann ekki til liðsins eftir þá skömmu dvöl. Áður hefur hann leikið fyrir Manchester City og Liverpool.
Raheem Sterling hefur ekki leikið fótbolta í Chelsea búning síðan árið 2024. Hann var á láni hjá Arsenal í fyrra en Skytturnar ákváðu að fá hann ekki til liðsins eftir þá skömmu dvöl. Áður hefur hann leikið fyrir Manchester City og Liverpool. Vísir/Getty

Raheem Sterling hefur æft með varaliði Chelsea í allt haust. Hann situr þar með sín 300 þúsund pund í vikulaun og gæti gefið einhverja seðla eftir til að komast aftur á fótboltavöllinn.

Sterling var settur til hliðar af stjórnendum hjá Chelsea í sumar og litlar líkur eru á breytingum varðandi hans stöðu þrátt fyrir ráðningu nýs þjálfara í Liam Rosenior.

Þeir sem völdin hafa hjá félaginu vilja kantmanninn á brott en þeir hafa greitt honum 300 þúsund pund í vikulaun þá tæpu 21 viku sem liðin er á leiktíðina fyrir það eitt að æfa með varaliðinu. Það gera 6,3 milljónir punda og ljóst að menn hjá Chelsea vilja síður setja mikið fleiri milljónir í vasa Sterlings fyrir ekkert framlag.

Sterling er með samning út næstu leiktíð, til sumarsins 2027. Chelsea vill losna við hann á láni, líkt og liðið gerði í fyrra til Arsenal, eða selja hann.

Það gæti reynst strembið að losna við Sterling enda virði hans fallið mjög. Það liggur fyrir að ekkert félag í heiminum er reiðubúið að greiða honum 300 þúsund pund á viku en Chelsea gæti þá þurft að greiða hluta launa hans ef hann fer á lán.

Samkvæmt The Athletichefur Sterling hins vegar lítinn áhuga á því. Hann vilji frekar semja alfarið við nýtt lið. Þá liggur fyrir að hann mun þurfa að gefa eftir einhverjar milljónir, ætli hann sér að snúa aftur á fótboltavöllinn í bráð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×