Erlent

Full­trúi ICE skaut konu til bana í Minneapolis

Agnar Már Másson skrifar
Blóðugur hauspúði úr bíl 37 ára konunnar sem skotin var til bana. ICE segir konuna hafa reynt að aka yfir fulltrúa sinn þegar þeir sátu um bíl hennar.
Blóðugur hauspúði úr bíl 37 ára konunnar sem skotin var til bana. ICE segir konuna hafa reynt að aka yfir fulltrúa sinn þegar þeir sátu um bíl hennar. AP

Fulltrúi ICE, innflytjendaeftirlits Bandaríkjanna, skaut 37 ára konu til bana í Suður-Minneapolis í Minnesota í dag er hún sat á bak við stýri í bíl sínum. Í yfirlýsingu segir eftirlitið að fulltrúinn hafi óttast um líf sitt. „Drullið ykkur úr Minneapolis,“ segir borgarstjóri Minneapolis við ICE. Hvíta húsið kallar bæjarstjórann skítseiði.

Emily Heller sjónarvottur lýsir því við ríkisútvarp Minnesota, MPR, að hún hafi séð fulltrúann skjóta konuna nokkrum sinnum. Heller segist hafa vaknað í morgun við læti fyrir utan húsið sitt og séð bíl stöðva umferð við Portland Avenue, sem virðist vera gert í mótmælum við aðgerðir ICE í götunni en Heimavarnaráðuneyti Bandaríkjanna ræsti í gær út tvö þúsund ICE-liða til tvíburaborganna Minneapolis og Saint Paul.

Heller segir að ICE-liðarnir hafi sagt konunni sem sat í bílnum að koma sér burt. Að sögn lögreglu var konan ein í bílnum.

„Hún var að reyna að snúa við og ICE-fulltrúinn var fyrir framan hana. Hann tók út byssu og setti hana beint framan í hana — þindin hans var á stuðaranum og hann teygði sig þvert yfir húddið — og skaut hana í andlitið svona þrisvar, fjórum sinnum,“ sagði Heller við ríkisútvarp Minnesota. 

Blóðugur hauspúði úr bíl konunnar.AP

Svo virtist að konan hafi gefið í og ekið um hundrað fet áður en hún rakst á staur og önnur faratæki, þar sem hún lá síðan bogin inni í bílnum.

„Óeirðaseggur“ hafi vopnvætt bílinn og ICE svarað með „varnarskoti“

Heimavarnarráðuneytið heldur því fram að konan hafi reynt að aka yfir fulltrúa ICE þegar hún var skotin til bana. „Ofbeldisfluttur óeirðarseggur“ hafi „vopnvætt“ ökutæki sitt og ICE-liðar svarað með „varnarskotum“, hefur NBC eftir talsmanni ráðuneytisins.

Donald Trump Bandaríkjaforseti lét ræsa út hundruð ICE-fulltrúa víða um Bandaríkin sem hafa í auknum mæli beitt hörku við handtökur á innflytjendum að því er NBC greinir frá.

„Drullið ykkur úr Minneapolis“

„Til ICE: Drullið ykkur úr Minneapolis,“ sagði Jacob Frey borgarstjóri á blaðamannafundi í dag. Hann staðfesti að konan væri 37 ára.

„Ykkar yfirlýsta ástæða fyrir því að vera hér er að skapa öryggi, en þið eruð að gera algjöra andstæðuna við það. Það er verið að hrella íbúa sem hafa búið í Minneapolis í langan tíma [...] og nú er einhver látinn. Það er á ykkar ábyrgð. Það er einnig á ykkar ábyrgð að fara.“

Vopnaðir lögreglumenn við götuna.AP

Hann sagði að ríkisstjórnin væri með aðgerðum sínum síðustu mánuði að reyna að eggja yfirvöld í ríkinu til þess að bregðast svo að ríkisstjórnin teldi sig hafa ástæðu til að bregðast við með herafli. 

„Þau vilja afsökun til að koma inn og sýna þess konar afl sem býr til meiri óreiðu og meiri þjáningu. Við skulum ekki leyfa þeim það,“ bætti Frey við.

Hvíta húsið: Borgarstjórinn er skítseiði

Hvíta húsið brást illa við þessum ummælum.

„Jacob Frey, borgarstjóri Minneapolis, segir að hetjurnar í ICE, sem hafa úthýst fjölda glæpamanna af götum Minneapolis, „séu ekki hér til að auka öryggi í borginni í þessari borg“,“ segir í yfirlýsingu Hvíta hússins samkvæmt BBC.

„Þetta skítseiði ætti að skammast sín,“ bætir Hvíta húsið, æðsta stofnun Bandaríkjanna, við í yfirlýsingunni.

Blóðugur hauspúði úr bíl konunnar.AP

Rúmlega fimm ár frá morðinu á George Floyd

Íbúar í Minneapolis bera lögregluyfirvöldum ekki ávallt fagra söguna. Eins og frægt er orðið var blökkumaðurinn George Floyd myrtur af hvítum lögreglumanni í borginni sem var að handtaka hann vegna gruns um að hafa borgað með fölsuðum seðli. 

Lögreglumaðurinn, er nefnist Derek Chauvin, þrýsti hné sínu á háls Floyd þar til hann lést. Upp úr þessu spratt bylgja mótmæla víða um Bandaríkin sem kennd voru við Black Lives Matter en víða spunnust mótmælin svo út í óreiðir, ekki síst í Minneapolis.

Minniháttar mótmæli hafa nú brotist út við vettvang lögregluaðgerðarinnar í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×