Handbolti

Elín Klara hetjan í fyrsta leik á nýju ári

Sindri Sverrisson skrifar
Elín Klara Þorkelsdóttir er algjör lykilmaður hjá Sävehof.
Elín Klara Þorkelsdóttir er algjör lykilmaður hjá Sävehof. Tom Weller/Getty Images

Elín Klara Þorkelsdóttir skoraði flest mörk, átti flestar stoðsendingar og skoraði mörkin sem að innsigluðu nauman útisigur Sävehof gegn Aranäs, 26-24, í sænsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld.

Elín Klara hefur verið algjör lykilmaður hjá Sävehof á sinni fyrstu leiktíð í atvinnumennskunni, eftir að hafa farið á kostum í Olís-deildinni síðustu ár, og virðist ætla að halda áfram á sömu braut á nýju ári.

Hún varð markahæst hjá Sävehof í kvöld með fimm mörk úr sjö skotum, þar af tvö af vítalínunni, og hún átti einnig fjórar stoðsendingar, flestar allra.

Aranäs var 15-12 yfir í hálfleik og var enn yfir, 20-19, þegar þrettán mínútur voru eftir. Þá komust gestirnir hins vegar yfir og náðu til að mynda þriggja marka forskoti þegar Elín Klara skoraði fjórum mínútum fyrir leikslok.

Heimakonur náðu að minnka muninn í eitt mark en þá skoraði Elín Klara sitt fimmta mark og það reyndist lokamark leiksins.

Sävehof er því áfram efst í deildinni með 22 stig eftir 12 leiki, hefur sem sagt unnið alla leiki nema einn, en Önnered er í 2. sæti með 21 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×