Enski boltinn

Magnaður sigur New­cast­le eftir tvö í upp­bótartíma

Sindri Sverrisson skrifar
Harvey Barnes fagnaði innilega eftir sigurmarkið í kvöld.
Harvey Barnes fagnaði innilega eftir sigurmarkið í kvöld. Getty/George Wood

Newcastle komst upp fyrir Manchester United og Chelsea, í 6. sæti ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta, með ótrúlegum 4-3 sigri gegn Leeds í kvöld.

Leeds var yfir, 3-2, þegar komnar voru 90 mínútur á klukkuna en þá jafnaði Bruno Guimaraes metin úr víti og enn var tími fyrir Harvey Barnes til að skora sitt annað mark, og tryggja Newcastle sigurinn, þegar langur uppbótartíminn var við það að klárast.

Newcastle er því með 32 stig í 6. sæti, jafnmörg stig og Manchester United sem er sæti neðar og einu meira en Chelsea og Fulham, eftir að United gerði jafntefli við Burnley í kvöld og Chelsea tapaði gegn Fulham.

Leedsarar mega vera sárir og sitja eftir með 22 stig í 16. sæti, átta stigum frá fallsæti. Brenden Aaronson kom þeim í 1-0 á 32. mínútu en Harvey Barnes jafnaði metin örfáum mínútum síðar, eftir stutta sendingu frá Nick Woltemade.

Leeds fékk svo vítaspyrnu í lok fyrri hálfleiks, þegar Malick Thiaw handlék boltann, og Dominic Calvert-Lewin skoraði af öryggi úr vítinu og kom Leeds í 2-1.

Í seinni hálfleiknum jafnaði Joelinton metin fyrir Newcastle með skalla en Aaronson kom Leeds yfir að nýju á 79. mínútu, með laglegum hætti og skoti úr teignum. Það dugði þó skammt eins og fyrr segir og Newcastle-menn fögnuðu gríðarlega sætum sigri sem er þeirra þriðji sigur í röð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×