Enski boltinn

Fyrir­liði Tottenham virtist á­saka stjórn­endur fé­lagsins um lygar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristian Romero var heitt í hamsi eftir leikinn en hér reynir liðsfélagi hans Guglielmo Vicario að róa hann niður í leik.
Cristian Romero var heitt í hamsi eftir leikinn en hér reynir liðsfélagi hans Guglielmo Vicario að róa hann niður í leik. Getty/Marc Atkins

Cristian Romero, fyrirliði Tottenham, var allt annað en sáttur með stjórnendur félagsins sem kom fram í harðorðri færslu á samfélagsmiðlum, sem nú hefur verið breytt.

Romero setti þetta inn eftir svekkjandi 3-2 tap liðsins gegn Bournemouth í gærkvöldi.

Spurs tapaði sínum áttunda leik í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu á Vitality-leikvanginum í gær eftir að Antoine Semenyo skoraði sigurmark á síðustu stundu. Það þýðir að lið Thomas Frank situr núna í fjórtánda sæti deildarinnar.

„Til að segja nokkrar lygar“

Eftir leikinn birti Romero langa yfirlýsingu þar sem hann bað stuðningsmenn afsökunar – en sagði einnig að „annað fólk“ ætti að stíga fram og tjá sig og að það „léti aðeins sjá sig þegar vel gengur, til að segja nokkrar lygar.“

Færslunni var breytt stuttu síðar og setningunni um „lygar“ var eytt. ESPN segir frá.

„Bið alla stuðningsmenn sem fylgja okkur hvert sem er afsökunar, sem eru alltaf til staðar og munu halda því áfram,“ skrifaði Romero.

„Við berum ábyrgðina, það er enginn vafi á því“

„Við berum ábyrgðina, það er enginn vafi á því. Ég er sá fyrsti til að taka þá ábyrgð. Við munum halda áfram að takast á við þetta og reyna að snúa stöðunni við, fyrir okkur sjálfa og fyrir félagið,“ skrifaði Romero.

„Á tímum sem þessum ætti annað fólk að stíga fram og tjá sig, en það gerir það ekki – eins og hefur verið raunin í nokkur ár. Það lætur aðeins sjá sig þegar vel gengur, til að segja nokkrar lygar,“ skrifaði Romero.

Hluti af fótboltanum að þegja

„Við verðum hér, vinnum, stöndum saman og gefum allt í þetta til að snúa hlutunum við. Sérstaklega á tímum sem þessum er það hluti af fótboltanum að þegja, leggja harðar að sér og halda áfram saman. Allt saman verður þetta auðveldara,“ skrifaði Romero.

Ólga var eftir lokaflautið á miðvikudag þar sem varnarmönnunum Micky van de Ven, João Palhinha og Pedro Porro, samherjum Romero, lenti saman við stuðningsmenn sem höfðu ferðast með liðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×