Fótbolti

Settu upp skautavelli inni á einum flottasta fótboltaleikvangi Spánar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Riyadh Air Metropolitano-leikvangurinn í Madrid líkist ekkert fótboltavelli þessa dagana.
Riyadh Air Metropolitano-leikvangurinn í Madrid líkist ekkert fótboltavelli þessa dagana. Getty/Diego Radames

Spænska deildin tók sér smá frí yfir jól og áramót og það eru því engir stórir fótboltaleikir þessa dagana á heimavelli Atlético Madrid. Spænska félagið ákvað að nýta leikvanginn í annað á meðan.

Atlético Madrid spilaði í gærkvöldi á móti Real Madrid í spænska Ofurbikarnum en þeir leikir fóru fram í Sádi-Arabíu en ekki á Spáni.

Þetta var því kjörið tækifæri fyrir Atlético-fólk að setja upp stærsta skautasvell Evrópu inni á heimavelli sínum. Þetta er að verða að árlegri hefð því félagið gerði hið sama í fyrra.

Skautasvelið er yfir fjögur þúsund fermetrar að stærð, staðsett í kringum grasvöllinn og einnig á efri palli. Miðinn kostar sextán evrur fyrir þá sem vilja skauta og sex evrur fyrir þá sem kjósa að koma bara inn á völlinn og horfa á. Það jafngildir rúmum 2300 krónum fyrir dýrari miðann og tæpum níu hundruð krónum fyrir þann ódýrari.

Auk skautasvellsins eru verslanir og veitingastaðir fyrir gesti á svæðinu, auk opinberrar skoðunarferðar um völlinn og hinnar opinberu verslunar félagsins, sem einnig er opin eins og venjulega.

Atlético Madrid spilar næst á Riyadh Air Metropolitano-leikvanginum sínum þann 18. janúar en það er leikur í tuttugustu umferð spænsku deildarinnar gegn Alavés.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×