Erlent

Stendur fastur fyrir og for­dæmir Trump

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Khamenei ávarpaði þjóðina í morgun.
Khamenei ávarpaði þjóðina í morgun. Getty/Anadolu/IRIB

Ayatollah Ali Khamenei, æðsti leiðtogi Íran, segir stjórnvöld í landinu ekki munu gefa eftir þrátt fyrir mikil mótmæli síðustu vikur. Hann segir mótmælendur skemmdarverkamenn sem séu að reyna Donald Trump Bandaríkjaforseta til geðs.

„Það er fólk hvers aðgerðir snúast aðeins um eyðileggingu,“ sagði Khamenei í ræðu sem sjónvarpað var í morgun. Hann fordæmdi orð Trump, sem sagði í síðustu viku að Bandaríkin myndu koma mótmælendum til aðstoðar ef þeir yrðu beittir ofbeldi af hálfu stjórnvalda. „Hann vill taka afstöðu með uppreisnarseggjum og skaðlegum einstaklingum,“ sagði Khamenei um Trump. „Ef hann getur það, þá ætti hann að einbeita sér að því að stjórna sínu eigin landi.“

Mannréttindasamtökin Amnesty International segja að minnsta kosti 28 hafa látist í mótmælunum, þar á meðal börn. Önnur samtök segja yfir 40 látna. Þegar Trump var spurður að því hvað hann ætli að gera vegna þeirra sem þegar hefðu látist í mótmælunum sagðist hann telja að flestir hefðu orðið undir í troðningi. „Ég veit ekki hvort ég geti gert neinn ábyrgan fyrir því,“ sagði hann.

Khamenei tók djúpar í árina í ávarpi sínu en Masoud Pezeshkian, forseti Íran, sem hefur kallað eftir umburðarlyndi og samtali. Khamenei sagði hendur Trump ataðar blóði Írana sem féllu í átökum við Ísrael í júní í fyrra og sagði Íran ekki myndu sætta sig við utanaðkomandi afskipti.

Þá hvatti hann unga fólkið til að standa vörð um trú sína og pólitíska hugsjón og vera reiðubúið. Sameinuð þjóð myndi sigra alla óvini.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×