Martinelli og hornspyrnur hetjurnar

Martinelli fagnar einu þriggja marka sinna í dag.
Martinelli fagnar einu þriggja marka sinna í dag. Mike Hewitt/Getty Images

Arsenal vann 4-1 sigur á Portsmouth á Fratton Park í 3. umferð FA-bikarsins í fótbolta. Gabriel Martinelli og hornspyrnur Skyttanna reyndust drjúg.

Það blés ekki byrlega fyrir Arsenal-menn í upphafi leiks þar sem Portsmouth náði óvænt forystunni eftir aðeins þriggja mínútna leik eftir fína sókn. Markið skoraði Colby Bishop er hann fylgdi eftir skoti liðsfélaga síns.

Sú forysta varði skammt. Arsenal fékk hornspyrnu fimm mínútum síðar og líkt og svo oft í vetur kom upp úr henni mark. Darraðadans myndaðist á teignum og boltinn fór af Andre Dozzell í eigið net, staðan 1-1.

Arsenal fékk aðra hornspyrnu sína um miðjan hálfleikinn og aftur kom mark. Gabriel Martinelli skallaði boltann laglega í netið. 2-1 stóð í hálfleik, en undir lok fyrri hálfleiks skaut Noni Madueke framhjá úr vítaspyrnu sem hann hafði fiskað sjálfur.

Martinelli skoraði sitt annað mark snemma í síðari hálfleik eftir fína sókn og tvöfaldaði þannig forskot Skyttanna. Tuttugu mínútum síðar skoraði hann svo sitt annað skallamark eftir hornspyrnu í leiknum er hann fullkomnaði þrennu sína með þriðja hornamarki Arsenal í leiknum.

Föstu leikatriðin og Martinelli skildu á milli. Arsenal vann 4-1 sigur og er komið áfram í fjórðu umferð bikarsins.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira