Enski boltinn

Drauma­prinsinn Benoný sendi að­dá­endum kveðju

Sindri Sverrisson skrifar
Benoný er sjálfsagt sannkallaður draumaprins í hugum stuðningsmanna Stockport County í dag.
Benoný er sjálfsagt sannkallaður draumaprins í hugum stuðningsmanna Stockport County í dag. Samsett/Stockport County

Benoný Breki Andrésson var svo sannarlega hetja Stockport County í dag með sínu fyrsta marki í ensku C-deildinni í fótbolta á þessari leiktíð.

Benoný átti sannkallaða draumainnkomu og skoraði eina mark leiksins í sigri gegn Huddersfield, á sjöttu mínútu uppbótartímans, við mikinn fögnuð, eftir að hafa komið inn á sem varamaður. Markið má sjá hér að neðan.

Þessi tvítugi markaskorari, handhafi markametsins í efstu deild á Íslandi, fékk svo síma í hendurnar eftir leikinn til að aðdáendur Stockport gætu fengið kveðju frá draumaprinsi dagsins:

„Hæ County-stuðningsmenn. Takk kærlega fyrir stuðninginn, hann var frábær. Ég er ánægður að hafa skorað þetta mark og get ekki beðið eftir að sjá ykkur í næsta leik,“ sagði Benoný á Instagram-síðu Stockport.

Sigurinn var afar mikilvægur því Stockport er nú í 4. sæti með 42 stig eftir 25 leiki, aðeins þremur stigum á undan Huddersfield sem hefur þó leikið einum leik meira. 

Stockport er sex stigum frá Lincoln í 2. sæti en tvö efstu liðin komast beint upp í B-deild á meðan að liðin í 3.-6. sæti spila um eitt laust sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×