Enski boltinn

Minntust nýlátins fé­laga og for­eldrarnir mættu í klefann

Sindri Sverrisson skrifar
Isaac Buckley-Ricketts og Paul Dawson voru skælbrosandi eftir sigurinn ótrúlega, þó að síðustu vikur hafi verið erfiðar fyrir alla hjá Macclesfield.
Isaac Buckley-Ricketts og Paul Dawson voru skælbrosandi eftir sigurinn ótrúlega, þó að síðustu vikur hafi verið erfiðar fyrir alla hjá Macclesfield. Getty/Michael Regan

Ethan McLeod, sem lést í bílslysi aðeins 21 árs gamall rétt fyrir jól, var Macclesfield-mönnum hugleikinn þegar þeir fögnuðu hreint ótrúlegum sigri utandeildarliðsins á ríkjandi bikarmeisturum Crystal Palace, í ensku bikarkeppninni í fótbolta í gær.

„Ég hugsaði það með mér þegar lokaflautið gall. Ethan var hérna í dag,“ sagði Isaac Buckley-Ricketts, maðurinn sem skoraði seinna mark Macclesfield í 2-1 sigrinum gegn Palace í gær, áður en hann fékk hreinlega kökk í hálsinn.

McLeod lést þann 17. desember síðastliðinn. Fyrsta leik Macclesfield eftir andlát hans var frestað en liðið hafði svo þurft að spila þrjá deildarleiki áður en kom að bikarleiknum í gær.

John Rooney, þjálfari Macclesfield og bróðir Wayne Rooney, minntist einnig McLeod bæði fyrir og eftir leik. Þá voru foreldrar McLeod sérstakir gestir á leiknum í dag og komu inn í búningsklefa eftir leik til þess að faðma liðsfélaga sonar síns og óska þeim til hamingju.

„Ég fékk hann til liðsins og heillaðist að honum frá fyrsta degi. Hann var algjör demantur – lífið og sálin í búningsklefanum. Hann var alltaf með bros á vör,“ sagði þjálfarinn John Rooney í aðdraganda leiksins.

Robert Smethurst, eigandi Macclesfield, sagði að leikmenn hefðu með sigrinum á Palace unnið sér inn ferð í sólina á Ibiza. Hann var sömuleiðis í hópi þeirra sem minntust McLeod sérstaklega.

„Ethan hjálpaði okkur rosalega við að komast hingað og ég get aldrei fyllilega þakkað honum og hans fjölskyldu,“ sagði Smethurst.

Það verður svo að koma í ljós hvaða mótherji bíður Macclesfield í 32-liða úrslitunum en áfram verður spilað í enska bikarnum í dag og á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×