Handbolti

„Eftir síðasta mót sögðu þeir bara strax að þeir vildu fá Ís­land“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
BJarki Már Elísson og Aron Pálmarsson fagna með íslensku áhorfendunum á HM fyrir þremur árum þegar Ísland spilaði einnig í Kristianstad.
BJarki Már Elísson og Aron Pálmarsson fagna með íslensku áhorfendunum á HM fyrir þremur árum þegar Ísland spilaði einnig í Kristianstad. Vísir/Vilhelm

Íslenska handboltalandsliðið er nálægt því að vera á heimavelli á Evrópumótinu í handbolta sem hefst með leik á móti Ítölum á föstudagskvöldið.

Riðill íslenska liðsins er auðvitað spilaður í Svíþjóð en hann fer fram í Kristianstad þar sem íslenska landsliðið og íslenskir stuðningsmenn þekkja vel til eftir heimsmeistaramótið 2023. Sterkar teningar hafa verið á milli borgarinnar og Íslands undanfarin ár og það fór einkar vel um íslenska stuðningsfólkið fyrir þremur árum.

Tinna Mark Antonsdóttir Duffield er tengiliður mótshaldara í Kristianstad í Svíþjóð fyrir EM og hún var í viðtali við handbolta.is. Tinna er líka eiginkona Ólafs Guðmundssonar, fyrrum landsliðsmanns í handbolta. Hún fer yfir í viðtali við íslensku handboltasíðuna hversu miklu máli það skipti Kristianstad að fá riðilinn til borgarinnar.

Tengingar á milli Kristianstad og Íslands

„Mótshaldarar sóttu sem sagt um að fá að halda mótið og að fá riðilinn sem Ísland væri í. Eftir síðasta mót sögðu þeir bara strax að þeir vildu fá Ísland. Svo eru náttúrlega alltaf tengingar á milli Kristianstad og Íslands,“ sagði Tinna Mark.

„Það hafa verið margir Íslendingar í Kristianstad, ekki bara í handboltanum heldur líka í fótboltanum. Það eru margir læknar hérna þannig að það er svolítil íslensk tenging í þessum bæ,“ sagði Tinna. Kvennafótboltalið félagsins hefur verið með marga Íslendinga í sínu liði í meira en áratug.

Þeir sóttu hart eftir því

„Þeir vildu ólmir fá Íslendingana aftur og sóttu um það. Það eru kannski ekki opinberar upplýsingar, ég veit það ekki, en það skiptir kannski ekki öllu máli. Þeir sóttu hart eftir því, að fá að halda mótið og þá að fá riðil Íslands,“ sagði Tinna en það má lesa allt viðtalið hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×