Innlent

Maður ársins og slökkvi­liðið brugðust við vegna álftar sem fraus föst

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu kom álftinni til aðstoðar en hún hafði frosið föst við ísinn á tjörninni í Hafnarfirði.
Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu kom álftinni til aðstoðar en hún hafði frosið föst við ísinn á tjörninni í Hafnarfirði. Facebook/Guðmundur Fylkisson

Meðal verkefna Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu síðastliðinn sólarhring var að aðstoða álft sem var frosin föst á læknum í Hafnarfirði. Slökkviliðinu tókst að leysa álftina úr prísundinni og hélt álftin svo áfram leið sinni um lækinn.

Slökkviliðið greinir frá verkefninu í stuttri færslu um helstu verkefni síðastliðins sólarhrings á Facebook í morgun. Það virðast þó hafa verið fuglavinir í Hafnarfirði sem kölluðu eftir aðstoð en sjálfur maður ársins, Guðmundur Fylkisson lögreglumaður, deildi myndum af álftinni á samfélagsmiðlum í gærkvöldi og sagði hjálp vera á leiðinni.

Álftin sat föst við ísinn í kuldanum.Facebook/Guðmundur Fylkisson

Myndunum deildi Guðmundur í Facebook-hópinn „Project-Henrý“, hópur sem tileinkaður er fuglum og fuglalífinu við Lækinn í Hafnarfirði, Víðistaðatjörn og höfnina í Hafnarfirði. Þar deildi Guðmundur einnig myndum frá björgunaraðgerðum eftir að slökkviliðið var mætt á vettvang. „Takk SHS. Við fylgjumst með henni,“ skrifaði Guðmundur eftir að álftin var laus úr prísundinni.

Ekki er langt síðan að björgunarsveitir og Brunavarnir Árnessýslu fengust við sambærilegt verkefni þegar álft hafði frosið föst við klaka í Ölfusá, líkt og Vísir greindi frá í síðustu viku, en þá tókst vöskum björgunarmönnum einnig að losa álftina sem sat föst í Ölfusá.

Á leið til aðstoðar.Facebook/Guðmundur Fylkisson
Loksins var álftin aftur laus.Facebook/Guðmundur Fylkisson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×