Innlent

Náð tökum á stór­brunanum í Gufu­nesi

Agnar Már Másson og Eiður Þór Árnason skrifa
Allt tiltækt slökkvilið var kallað út.
Allt tiltækt slökkvilið var kallað út. Vísir/Viktor Freyr

Mikill eldsvoði kviknaði í Gufunesi í Reykjavík og sást reykur víða um höfuðborgarsvæðið. Slökkviliðið hefur náð tökum á eldinum. Stjórnarformaður True North segir að mikið tjón hafi orðið á eignum framleiðslufyrirtækisins en TrueNorth leigir skemmuna af Reykjavíkurborg. 

Klukkan 17:03 barst lögreglu tilkynning um mikinn eld í skemmu við Gufunesveg í Grafarvogi. Stigabíll slökkviliðs, dælubílar og sjúkrabílar mættu á vettvang skömmu síðar en þá blasti við eldhaf sem náði um tólf metra í loftið, að sögn sjónarvotts. 

Lögregla varaði íbúa í nágrenni við Gufunesveg að loka gluggum þar sem mikinn reyk lagði frá skemmunni. Íbúar í nærliggjandi hverfum lýstu mikilli brunalykt, svo sem í Grafarvogi og Árbæ. 

Skemman er í eigu Reykjavíkurborgar en TrueNorth hefur leigt hana að undanförnu. Stjórnarformaður TrueNorth segir að í skemmunni hafi mátt finna sögulega muni sem framleiðslufyrirtækið hafi notað í bíómyndum sem erfitt sé að bæta með peningum.

Upp úr klukkan 19 hafði slökkvilið náð góðum tökum á eldinum og kallað helming af liði sínu til baka. Um klukkan 21 var að mestu búið að slökkva eldinn og einungis þrír slökkviliðsmenn eftir á svæðinu til að slökkva eldhreiður sem gætu kviknað undir rústunum. 

Fylgst verður með gangi mála í vaktinni hér að neðan. Ef hún birtist ekki þá er ráð að endurhlaða síðunni. 


Veistu meira um málið? Sendu okkur upplýsingar og myndir hérna.




Fleiri fréttir

Sjá meira
×