Innlent

Borgin beri á­byrgð sem eig­andi

Lillý Valgerður Pétursdóttir og Eiður Þór Árnason skrifa
Birgir Finnsson, starfandi slökkviliðsstjóri á höfuðborgarsvæðinu, segir ýmsar ástæður geta verið fyrir því að húsið var orðið alelda þegar slökkvilið kom á staðinn.
Birgir Finnsson, starfandi slökkviliðsstjóri á höfuðborgarsvæðinu, segir ýmsar ástæður geta verið fyrir því að húsið var orðið alelda þegar slökkvilið kom á staðinn. Sýn

Borgin firrti sig allri ábyrgð á skemmu sem gjöreyðilagðist í bruna í Gufunesi þegar hún var leigð út. Leigutaka átti að vera slæmt ástand skemmunnar ljóst en þar voru geymdir sögulega verðmætir hlutir. Slökkviliðsstjóri segir borgina bera ábyrgð en brunavarnir séu samspil eiganda og leigutaka. 

Rannsókn stendur yfir á upptökum brunans. Strax í gærkvöldi var ljóst að um altjón var að ræða. Kvikmyndaframleiðslufyrirtækið True North hafði skemmuna á leigu en Reykjavíkurborg er eigandi hennar. Fyrirtækið nýtti skemmuna undir gamla leikmuni.

Slökkvilið slökkti í síðustu glæðunum rétt fyrir hádegi í dag en eftir það kom tæknideild lögreglunnar á svæðið og byrjaði að rannsaka upptök eldsins.

Grétar Stefánsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.Vísir/Grétar

„Svona brunarannsóknir geta verið svolítið umfangsmiklar og það er bæði verið að taka sýni og ljósmyndir. Þetta er bara hefðbundin vettvangsrannsókn hjá okkur. Það eru notaðar myndavélar, drónar og þrívíddarskannar til að reyna að varpa sem bestu ljósi á aðstæður,“ segir Grétar Stefánsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Það sé erfitt að segja til um það hvenær von sé á niðurstöðu úr rannsókninni og hún muni taka einhverjar vikur.

Klippa: Borgin firrir sig ábyrgð

Skoða hvort kviknað hafi út frá rafmagni sem athugasemd var gerð við

Grétar segir allt til skoðunar, þar á meðal hvort kviknað hafi í út frá rafmagni. Athugasemdir voru gerðar við ástand hússins árið 2024 og þá sér í lagi rafmagnið.

Slökkviliðið skoðaði húsið sama ár og þá var brunavörnum ábótavant en eigendur voru látnir vita af því. Engin eftirfylgni var þó af hálfu slökkviliðsins þar sem um var að ræða þannig húsnæði.

Guðjón Davíðsson, stjórnarformaður True North, sagði í hádegisfréttum Bylgjunnar um mikið tjón að ræða. Fyrirtækið hafi vitað um ástand hússins og það hafi verið í ágætis standi. Hann vildi að öðru leyti ekki tjá sig um málið í dag.

Í leigusamningi Reykjavíkurborgar og True North um skemmuna, sem undirritaður var þann 14. mars árið 2024, firrir borgin sig ábyrgð og setur fyrirvara um að leigutaka sé kunnugt um mjög slæmt ástand hússins.

Þá segir í samningnum að True North annist allar tryggingar á eignum sínum í hinu leigða húsnæði, til að mynda húseigendatryggingu.

Rannsókn stendur yfir á upptökum eldsins.Vísir/vilhelm

Reglugerðin sé skýr

Birgir Finnsson, starfandi slökkviliðsstjóri á höfuðborgarsvæðinu, segir ýmsar ástæður geta verið fyrir því að húsið var orðið alelda þegar slökkvilið kom á staðinn upp úr klukkan 17 í gær. Bæði skipti brunavarnir byggingarinnar máli og eldsmaturinn þar inni.

„Til hvers húsið var notað og hvað var inni í því og í þriðja lagi gæti auðvitað verið að eldur hafi verið búinn að krauma í einhvern tíma áður en einhver sér hann. Að það hafi orðið eitthvað til þess að hurð hafi gefið sig eða gluggi eða eitthvað slíkt og reykur komið út en hann búinn að krauma inni í byggingunni í einhvern tíma áður en fólk verður vart við hann. Húsnæðið er alelda þegar við komum á staðinn.“

Slökkvistarf stóð fram á kvöld. Vísir/vilhelm

Reykjavíkurborg á umrædda byggingu og slökkvilið gaf út árið 2024 að brunavörnum væri þar ábótavant, líkt og áður segir. En hvort er það leigusali eða leigutaki sem ber ábyrgð þegar kemur að brunavörnum í slíku húsnæði?

„Það er reglugerð um eldvarnir í húsum þar sem kemur fram að eigandi er ábyrgur fyrir brunavörnum en síðan er þetta auðvitað samspil eigenda og þess sem tekur húsið á leigu. Til hvers á að nota það og hvernig. Þannig að Reykjavíkurborg ber ábyrgð sem eigandi og samningur á að vera á þeim grundvelli en svo þarf auðvitað leigutaki að nota húsið. Starfsemin þarf að vera í takti við það sem hann leigir húsið til,“ segir Birgir.

Höfðu ekki áhyggjur af fólki

Er eðlilegt að það sé verið að leigja húsið út í svona slæmu ásigkomulagi án þess að huga betur að brunavörnum?

„Þetta er geymsluhúsnæði og það er leigt sem slíkt. En auðvitað þarf að huga að því og við gerum þarna úttekt 2024 þar sem við gerum meðal annars athugasemdir við rafmagn. 

En þá var húsnæðið tómt og í sjálfu sér ekki vitað í hvað það ætti að nota. Við höfum síðan ekki frekari afskipti af því sökum þess að þetta er geymsluhúsnæði í mjög lélegu ásigkomulagi og höfum ekki í raun og veru frekari áhyggjur af því að þarna sé eitthvað fólk í hættu eða eitthvað slíkt,“ segir Birgir Finnsson, starfandi slökkviliðsstjóri á höfuðborgarsvæðinu.


Tengdar fréttir

„Vorum bara með húsið í því ástandi sem það var“

Stjórnarformaður Truenorth segir forsvarsmenn fyrirtækisins ekki sérstaklega hafa haft til skoðunar ástand skemmunnar í Gufunesi sem brann í gær og hýsti meðal annars gamla leikmuni fyrirtækisins. Ekki sé búið að verðmeta tjónið enn en það sé í raun óbætanlegt.

Borgin firrti sig allri ábyrgð á skemmunni

Samkvæmt leigusamningi Reykjavíkurborgar og Truenorth um skemmuna í Gufunesi, sem brann í gær, ber borgin enga ábyrgð á tjóni á eignum Truenorth vegna brunans. Forsvarsmenn félagsins hafa sagt ómetanlega sögulega muni hafa verið í skemmunni þegar hún brann en hún var notuð undir gamla leikmuni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×